138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

happdrætti.

512. mál
[20:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta síðasta kann ég ekki að meta. Mér finnst virkilega móðgandi og niðurlægjandi að heyra þetta. Ég er að þessu af fullri alvöru. Ég sagði það í ræðu minni áðan að ég þarf ekki að skipta um skoðun. Ég sagði í ræðu minni áðan að þeir sem þess óska geti verið sviptir sjálfræði ef þeir óska þess sjálfir. Hv. þingmaður heyrði ekki þessa viðbót. Ég get ekki gert að því. Hann getur hlustað á ræðuna á netinu en ég er að þessu í fullri alvöru.

Menn geta ekki óskað eftir því í dag að vera sviptir sjálfræði, því að þeir geta hvenær sem er afturkallað þá ákvörðun og þá eru þeir ekki lengur sviptir sjálfræði. Ég er að tala um að fólk sem er langt leitt og sér það sjálft og langar virkilega til að ráða bót á sínum vanda geti óskað eftir því við dómara að vera svipt sjálfræði í eitt eða tvö ár vegna þess að það er eina lausnin sem það sér á vandanum. Ég er að tala um að fólk geri þetta sjálft. Það eru mjög margir fíklar sem eru langt leiddir og sjá nákvæmlega hvert stefnir. Þeir sjá það nákvæmlega en þeir ráða ekki við stöðuna og geta í dag ekki óskað eftir því að vera sviptir sjálfræði, vegna þess að þeir geta hvenær sem er afturkallað það. Ég ætla að biðja hv. þingmann að fara ekki að gera mér það upp að ég segi þetta af einhverri léttúð. Mér finnst það alveg svakalegt þegar hv. þingmaður segir það, frú forseti. Mér er bara misboðið.