138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg og vona að í heild njóti þetta frumvarp víðtæks stuðnings á Alþingi. Ástæðan fyrir því að ég tel mig knúinn til að koma upp í andsvar við hv. formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall, er í raun að inna hann eftir því hvað störfum allsherjarnefndar líður er viðkoma öðrum málum sem eru kannski enn mikilvægari. Þetta frumvarp leysir vanda þeirra sem þegar eru komnir í þrot en fyrir allsherjarnefnd liggja a.m.k. tvö frumvörp sem ég veit um sem hugsanlega gætu orðið þeim til nota sem ekki eru alveg komnir að fótum fram, eða a.m.k. annað þeirra, svokallað lyklafrumvarp hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Ég vil bara spyrja: Á ég von á því að við getum farið að fjalla um lyklafrumvarpið, hugsanlega með nauðsynlegum breytingum, eins og ég hef áður vakið athygli á að þurfi að gera á því, og einnig annað frumvarp þar sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir er fyrsti flutningsmaður, um fyrningarfresti í gjaldþroti, sem ég tel að sé einnig mikilvægt. Mér finnst nauðsynlegt að þegar við fjöllum um það frumvarp sem hér er, sem er um breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um nauðungarsölu, þá viti þingheimur hvort við eigum nú þegar sjö dagar lifa eftir af þingi, ef starfsáætlun Alþingis nær fram að ganga … (PHB: Sex.) Já, sex, þakka þér fyrir hv. félagi Pétur Blöndal. (Forseti hringir.) Eigum við von á því að fá þau frumvörp sem ég nefndi til afgreiðslu og umræðu í þinginu þannig að við getum farið að takast á við mál af alvöru?