138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Ég þakka hv. formanni allsherjarnefndar fyrir svörin. Þau valda mér að vísu vonbrigðum. Ég hef sjálfur lesið álit Seðlabankans á frumvarpi því sem ég gerði hér að umtalsefni áðan, svokölluðu lyklafrumvarpi Lilju Mósesdóttur og fleiri. Það er dálítið „býrókratískt“ álit og leitar ekki eftir því að finna lausn á þeim vanda sem við blasir.

Ég bara trúi því ekki að allsherjarnefnd sem er búin að hafa þetta frumvarp til umfjöllunar í hálft ár — í hálft ár — ætli ekki að koma frumvarpinu til umræðu hér á þingi þannig að við getum tekið efnislega afstöðu til málsins. Ég skora á hv. formann allsherjarnefndar, Róbert Marshall, að lýsa því hér yfir í þingsal að hann muni beita öllum sínum ráðum sem nýr formaður allsherjarnefndar til að koma málinu hingað í þingsal þannig að við getum farið að ræða það. Ég trúi ekki öðru en að það sé létt verk fyrir formann allsherjarnefndar að gefa það loforð enda hygg ég að þar með sé meiri hluti allsherjarnefndar að leggja málið fram.