138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[20:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti kannski von á því að hv. þingmaður gæti ekki upplýst mig um afskriftakröfuna á milli gömlu og nýju bankanna en ég ætla að endurtaka seinni spurningu mína um það hvort hann geti hugsanlega tekið undir þá skoðun mína að það hafi verið mistök að færa ekki íbúðalánin út úr þrotabúunum eða út úr gömlu bönkunum inn í Íbúðalánasjóð þannig að það væri með afgerandi hætti hægt að láta afskriftirnar ganga til heimilanna í landinu en ekki til að nýta þær til þess að rukka heimilin af fullum krafti og til þess að endurreisa bankana. Það var þetta sem ég var að spyrja að og ég tel að þetta hafi verið ákveðin mistök.

Ég vil líka vekja athygli á því ef einstaklingur eða fjölskylda hafði verið með íbúðalán, sem hefur kannski verið með 50% veðhlutfalli á húseigninni, og síðan varð gengishrunið og krónan féll í lok árs 2008, þá tvöfaldaðist skuldin. Eigi að síður er þetta fólk þeir einstaklingar sem fá engar afskriftir vegna þess að þeir eru á jaðrinum. Þetta er fólk sem er alveg við það að gefast upp, það má orða það þannig að vatnið fljóti upp undir neðri vörina.

Ég hef sagt það áður og segi það enn að ef það er nokkuð nærri lagi að nýi bankinn hafi tekið kröfuna yfir á hálfvirði er hann í raun og veru að rukka fólkið um helmingi hærri vexti en þeir eiga að vera vegna þess að hann fær kröfuna á helmingsafslætti og rukkar áfram sömu vexti á allar kröfur. Mér finnst þetta mjög óréttlátt og eru vextir nú nógu háir á Íslandi. Hægt er að færa efnisleg rök fyrir því sem ég er að segja. Nýi bankinn rukkar viðkomandi fjölskyldur og heimili í landinu um helmingi hærri vexti vegna þess að hann tekur kröfuna yfir á hálfvirði.