138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[21:20]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ætli það sé ekki að verða eitt og hálft ár síðan ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna tók við völdum. Lagt var af stað upp í þá vegferð með mikil og háleit markmið sem ríkisstjórnin taldi að væru brýnust fram undan. Það var mikið lagt upp úr því af hálfu hæstvirtra ráðherra, ekki síst hæstv. forsætisráðherra, að reisa þyrfti skjaldborg um heimilin í landinu. Samfylkingin lofaði því að reist yrði velferðarbrú yfir í velferðarkerfið. Þegar maður hlustaði á kosningaloforð þessara tveggja flokka og las stefnuyfirlýsingu þeirra eftir að ríkisstjórnin tók við og var kynnt þá hugðist hún gera allt fyrir alla, þannig voru áformin. Það átti að bjarga heimilunum í landinu, það átti að koma hjólum efnahagslífsins af stað á nýjan leik og reisa landið upp úr hruninu.

Nú er eitt og hálft ár liðið frá því að þessi ríkisstjórn tók við og því miður hefur afar lítið gerst. Ríkisstjórninni hefur ekki lánast að standa við þau loforð sem gefin voru. Auðvitað hafa ýmis loforð, t.d. Vinstri grænna, verið svikin eins og aðildarmálið, aðildarumsóknin að Evrópusambandinu, og reyndar fleiri mál sýna, afstaðan í Icesave-málinu og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Raunar er það orðið þannig að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er orðin uppiskroppa með loforð sem hægt er að svíkja.

Það versta í öllum þessum málum er að það hefur ekki verið staðið við gefin loforð gagnvart heimilum og fyrirtækjum í landinu. Skjaldborgin hefur aldrei risið, velferðarbrúin er á einhverju byrjunarstigi og allan þennan tíma hafa heimilin í landinu blætt fyrir aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar.

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar varðar bætta réttarstöðu skuldara. Í nefndaráliti allsherjarnefndar segir að með frumvarpinu séu lagðar til fjölmargar breytingar, m.a. að skiptastjóri í þrotabúi geti heimilað einstaklingi að búa áfram í húsnæði í eigu búsins í allt að tólf mánuði eða að halda umráðum einstakra lausafjármuna þess gegn greiðslu leigu. Þetta eru út af fyrir sig breytingar af hinu góða enda sé ég að þingmenn allra flokka skrifa undir nefndarálitið sem þýðir að það er ekki pólitískur ágreiningur. Hv. þingmenn eru þeirrar skoðunar að frumvarpið beri að samþykkja og ég hygg að ég muni taka undir með þeim.

Staðreyndin er sú að frumvarpið endurspeglar og varpar ljósi á það að með þessum úrræðum sem lögð eru til er gripið allt of seint inn í málefni skuldara þessa lands. Vilji menn á annað borð leysa skuldavanda heimilanna þurfa að koma fram úrræði sem bæta réttarstöðu þeirra áður en allt er komið í óefni. Í þessu máli er gert ráð fyrir því að gripið sé til aðgerða þegar heimilin eru komin í svo erfið mál, svo mikla og sterka fjárhagslega spennitreyju, að þau þurfa á sérstökum úrræðum að halda. Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að átta sig á þessu löngu fyrr.

Ég minni á að í þessum þingsal höfum við áður rætt um endurnýjaða viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég benti á það í umræðu fyrir nokkuð löngu síðan að í þeirri viljayfirlýsingu er mælt svo fyrir, eða ríkisstjórnin gefur Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrirheit, að ekki verði ráðist í frekari aðgerðir til hjálpar heimilunum í landinu eftir, að ég hygg, október eða nóvember á þessu ári. Þetta þýðir að öllu óbreyttu mun holskefla nauðungarsala gagnvart fjölskyldum og heimilum sem eru í vanda skella á á sama tíma og ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til þess að grípa ekki til neinna frekari sértækra aðgerða gagnvart heimilunum. Þetta er auðvitað mikið áhyggjuefni.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á það hér að fram hafa komið tillögur sem vert er að skoða. Ég nefni sem dæmi lyklafrumvarpið svokallaða sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir flutti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að það má ýmislegt um það segja. Við sem erum lögfræðingar getum haldið því fram að ýmis sjónarmið og reglur sem þar koma fram séu kannski ekki í samræmi við þær meginreglur sem almennt eru taldar gilda á þessu sviði. En frumvarpið sýnir þó góðan vilja til þess að ganga lengra til bjargar heimilum og skuldsettu fólki í landinu en ríkisstjórnin er reiðubúin að stíga. Þó svo að það séu eflaust einhver ákvæði í frumvarpinu sem maður mundi undir venjulegum kringumstæðum hafa ákveðnar efasemdir um eða setja spurningarmerki við, er það þannig að við þurfum að taka frumvarpið til efnislegrar umræðu hér í þinginu og kanna hvort það sé þingmeirihluti fyrir því og þá með þeim breytingum sem nauðsynlegar eru á málinu.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki verið reiðubúnir til þess að stíga þessi skref og ganga lengra. Það er miður því að eins og ég kom inn á hér áðan má búast við því að í október eða nóvember skelli á holskefla nauðungaruppboða þegar tímafrestir sem gefnir voru eru liðnir. Það sem verra er að núna fáum við upplýsingar um það víðs vegar úr kerfinu að skuldastaða heimilanna sé töluvert verri en menn höfðu reiknað með. Þá vísa ég til að mynda til nýútkominnar skýrslu eða úttektar Seðlabanka Íslands sem varpaði ljósi á að það eru fleiri heimili en áður var talið í fjárhagslegum vandræðum og skuldastaðan er verri en talið var.

Þar við bætist að efnahagsástand í landinu er slæmt. Verðbólga er enn þá há þannig að verðlag hefur hækkað, launin hafa lækkað, skattar hækkað og allt þetta leiðir til þess að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa minnkað. Þar fyrir utan er atvinnuleysið enn of mikið og ríkisstjórnin hefur þverskallast við að grípa þau tækifæri sem þó eru til staðar í atvinnuuppbyggingu. Það er við þessar aðstæður sem menn ætla að ræða um réttarstöðu skuldara og reyna að bæta hag þeirra. Ég hefði talið, eins og ég sagði áður, að ríkisstjórnin ætti að leggja til róttækari hugmyndir sem hefðu nýst fólki betur fyrr í ferlinu en kæmu ekki til skoðunar og athugunar þegar allt er í óefni komið.

Ég sé ekki betur en að meiri hluti þingmanna sé fylgjandi þeim sjónarmiðum sem mælt er fyrir í frumvarpinu. Hér segir, eins og ég kom inn á áðan, að í frumvarpinu er lagt til að skiptastjóri þrotabús geti heimilað einstaklingi að búa áfram í allt að 12 mánuði í húsnæði sem er í eigu búsins eða halda umráðum einstakra lausafjármuna þess gegn greiðslu leigu. Þetta er auðvitað mikilvægt. Þegar ljóst er að heimili eða einstaklingar eru komin í þrot er mikilvægt að þeim sé veitt svigrúm til þess að koma sér fjárhagslega aftur á lappir til þess að endurskipuleggja framtíð sína þegar fyrir liggur að viðkomandi hefur ekki lengur tök á eða fjárhagslega getu til þess að búa í sínu eigin húsnæði.

Inn í þetta spilast margvísleg sjónarmið. Það er auðvitað ekkert gamanmál fyrir fólk að missa heimili sín. Fyrir suma er það félagslega erfitt gagnvart umhverfi sínu að horfast í augu við eignamissi, eignarýrnun eða eignaminnkun eins og þessa. Þessir hlutir snerta ekki bara foreldra heldur einnig börn. Þau sækja skóla í tilteknu hverfi og þurfa hugsanlega að horfa fram á einhverjar breytingar í sambandi við það hvernig komið er fyrir fjölskyldunni. Í nefndarálitinu sem hér liggur frammi sé ég að tekið er tillit til þessara atriða. Ég tel mikilvægt að þeir hv. þingmenn sem undir þetta nefndarálit rita séu reiðubúnir að leggja til að fólk fái svigrúm til þess að fóta sig á nýjan leik eftir fjárhagslegt áfall.

Hér koma fram ýmis önnur sjónarmið sem eru athyglisverð. Í frumvarpinu er lögð til heimild handa skiptastjóra að heimila einstaklingi að búa áfram í húsnæði sem hann hefur misst í allt að 12 mánuði, sem er ekki lengur háð því skilyrði að veðhafar samþykki ráðstöfunina. Þetta er út af fyrir sig ný regla í gjaldþrotaréttinum. Venjulega er það þannig þegar bú manna eru tekin til skipta og skiptastjórar taka þau yfir þá starfa þeir í þágu kröfuhafanna sem eiga kröfu í búið. Við þessar aðstæður er lögð til sú nýja regla að skiptastjóri fái aukna heimild frá því sem áður var. Það hlýtur að helgast af þeirri stöðu og þeim aðstæðum sem þessu frumvarpi er ætlað að mæta.

Í nefndarálitinu segir líka að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að skiptastjóri geti ákveðið að greidd verði leiga fyrir afnotin sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem þrotabúið ber af eigninni. Ég tel þessa reglu vera sanngjarna gagnvart þeim sem eftir þessu þurfa að leita. Það getur auðvitað verið erfitt að vega og meta hvað telst til hæfilegrar húsaleigu í skilningi frumvarpsins.

Ég sé að hv. nefnd hefur síðan velt því töluvert fyrir sér hvort ákvæði húsaleigulaga eigi almennt að gilda við þær aðstæður sem frumvarpinu er ætlað að taka á. Sömuleiðis er því velt upp hvort eðlilegt sé að krefja þrotamenn um tryggingu fyrir leigugreiðslum eða skemmdum á eigum. Nú er það þannig að aðstæður eru mjög mismunandi í hverju máli fyrir sig. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt er að greiða a.m.k. einhverja lágmarksleigu fyrir afnot og eftir því sem kostur er væri auðvitað eðlilegt að menn legðu fram tryggingu gagnvart því tjóni sem kann að hljótast. Ef við horfumst hins vegar í augu við raunveruleikann þá tel ég að þeir sem þurfa að leita úrræða sem hér er um að ræða séu væntanlega ekki aflögufærir um að leggja fram háar tryggingar eða greiða háar bætur. Ég fæ því ekki betur séð en að nefndin taki tillit til þessara atriða og það er vel.

Það eru auðvitað fjölmörg önnur atriði hérna í þessu frumvarpi sem vert væri að nefna eins og uppgjör skulda við nauðungarsölu og þær reglur sem koma fram um gjaldtöku lögmanna. Ég held að ég muni að þessu sinni ekki fjalla nánar um þau atriði en ég ítreka það að ég tel að hér sé verið að stíga rétt skref gagnvart skuldurum þessa lands. Ég ítreka enn aftur það sem ég sagði áðan að með þessu frumvarpi bregst ríkisstjórnin allt of seint við öllu skuldaferlinu. Menn hefðu þurft að grípa til einhverra aðgerða sem hefðu nýst fólki fyrr, áður en allt er nánast komið í óefni eins og í þeim tilvikum sem hér um ræðir.

Viðhorf mín til málsins, frú forseti, eru jákvæð og ég geri ráð fyrir því að þetta mál muni hljóta ágætis brautargengi á þinginu.