138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

gjaldþrotaskipti o.fl.

510. mál
[21:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hélt margar ræður um málefni heimilanna, bæði hér úr þessum ræðustól og sömuleiðis á öðrum vettvangi stjórnmála og m.a. þegar fyrirséð var að fjölmörg heimili mundu eiga í vandamálum þá talaði ég fyrir ýmsum af þeim úrræðum sem hér er talað fyrir. Ég get nefnt að ég, öfugt við hv. þingmann, hef reynt að berjast gegn því að skattar á þetta fólk séu hækkaðir. Við höfum verið ósammála um það og þar með hef ég verið talsmaður þess að ráðstöfunarfé heimilanna yrði ekki skert. Að sama skapi hygg ég að ég hafi talað fyrir meiri atvinnuuppbyggingu, t.d. í stóriðju á öðrum sviðum en hv. þingmaður eða sá stjórnmálaflokkur sem hann tilheyrir hefur treyst sér til að gera þannig að það eru auðvitað ýmis sjónarmið sem ég hef haft uppi varðandi það tímabil sem hv. þingmaður nefnir þarna. Ég er ekki með þessar tölur reyndar fyrir framan mig.

Ég skal alveg viðurkenna að það mátti vel gera meira á þeim tíma og þá voru í ríkisstjórn, ef ég man rétt, sá flokkur sem ég tilheyri og sömuleiðis sá flokkur sem hv. þingmaður tilheyrir. Ég skal fallast á það að sú ríkisstjórn sem þá var við völd hefði mátt gera meira fyrir þau heimili sem þarna eru nefnd en gert var.