138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nánar út í hugmyndirnar sem þessu tengjast, gjaldtökuna og veggjaldið og það nýja kerfi sem boðað er, þar sem hægt verður að fylgjast með notkun og keyrslu ökutækja. Eins og ég skil hana, er hugmyndin sú að skattleggja eftir notkuninni. Einnig vil ég nefna fjármögnunina, einhvern veginn verður að borga lán lífeyrissjóðanna til baka og þá með veggjöldum eða þessu nýja kerfi.

Nefnd hafa verið verkefni sem fyrirhugað er að fara í, Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, og það sem eftir er af Reykjanesbraut. Ég tek eftir því að framkvæmdir annars staðar á landinu eru ekki nefndar eins og t.d. Héðinsfjarðargöngin í nágrenni við hæstv. ráðherra. Er það ekki rétt skilið hjá mér að kerfið eigi að ná til landsins alls og að fylgjast eigi með keyrslu og notkun bifreiða og skattleggja eftir því? Er nokkuð því til fyrirstöðu að það verði látið gilda fyrir allar framkvæmdir hér eftir? Það verði þá metið hvað Héðinsfjarðargöngin kosta út af fyrir sig, hvað Reykjanesbrautin kostar og síðan rukkað eftir því. Eða á þetta bara að ná til vegaframkvæmda út úr höfuðborginni?

Eins og sagt er í greinargerð með frumvarpinu eru tvö dæmi um veggjöld hér á landi til að (Forseti hringir.) flýta framkvæmdum: Reykjanesbrautin á 7. áratugnum og Hvalfjarðargöng. Ég sem Suðurnesjamaður segi því: (Forseti hringir.) Suðurnesjamenn eru búnir að taka veggjaldapakkann.