138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:43]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg í stuttu andsvari. Hún spyr um gjaldtökuna og hvernig hún verði í framtíðinni.

Það skal tekið skýrt fram, virðulegi forseti, að hugsunin er sú að endurgreiðslur á lánum frá lífeyrissjóðunum, ef af þeim verður, komi aldrei til fyrr en að lokinni framkvæmd, árin 2014/2015. Ég hef sagt, virðulegi forseti, að ég tel að við eigum að taka upp besta kerfið sem verið er að hanna í Evrópu. Búið er að taka það í notkun í nokkrum löndum. Það verði rafræn innheimta í gegnum gervihnött. Þá falla öll önnur gjöld niður, eins og olíugjöld og bensíngjöld, og verður aðeins um eitt gjald að ræða. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, þetta eru hálfgerð notkunargjöld, notendagjöld eftir stað og stund. Þessi tækni hefur geysilega mikla möguleika í för með sér. Með henni er möguleiki á að taka tillit t.d. til búsetu manna. Ef menn eiga um langan veg að fara til þess að sækja vinnu eða fara í skóla, er hægt að setja inn í kerfið að viðkomandi aðili sé háður afslætti vegna keyrslu til og frá vinnu, eða fari langan veg til skóla. Einnig má taka tillit til flutningskostnaðar, eða taka tillit til þess ef menn keyra á ónýtum, gömlum moldarvegum eins og á sunnanverðum Vestfjörðum um þessar mundir. Möguleikarnir eru óteljandi.

Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, og það er svar mitt við spurningu frá hv. þingmanni, sem velti henni upp, að það sé verkefni hinnar þverpólitísku nefndar að fara í gegnum þetta allt. Hún hefur góðan tíma til að gera heildartillögur um heildarfjáröflun til vegagerðar og rekstur vegakerfisins. Þá er að mínu mati allt undir hvað það varðar — allt undir. Það þarf ákveðna fjárupphæð til að reka vegakerfið og það þarf ákveðna upphæð til að byggja nýja vegi og við þurfum hugsanlega ákveðna upphæð til að standa straum af afborgunum af lánum og því sem við gerum (Forseti hringir.) þannig að útfærsluatriðin eru ótal mörg. Í þeim efnum útiloka ég ekkert og menn verða að horfa mjög vítt yfir sviðið.