138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir.

650. mál
[22:47]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi hið framsækna kerfi sem ég gerði hér að umtalsefni. Það er sennilega alveg hárrétt orð yfir það. Þetta er mjög framsækið kerfi vegna þeirra möguleika sem það býður upp á. Skal ég enn einu sinni ítreka það, virðulegi forseti, að kerfið verður aldrei tekið upp nema með fullkominni sátt við Persónuvernd og að persónuverndarsjónarmið verði höfð í heiðri þannig að þau verði ekki misnotuð á einn eða neinn hátt.

Þetta framsækna kerfi eins og hv. þingmaður kallar það býður m.a. upp á að þegar bíll keyrir um borð í ferju, tökum það sem dæmi, þá tifi það inn í kerfið og þar með gjaldið líka. Þar með þarf viðkomandi ekki að borga í ferjuna. Við getum t.d. sagt ef við viljum mismuna á jákvæðan hátt: Íbúar tiltekinna svæða sem þurfa að fara í ferju geta verið á afsláttarkjörum meðan aðrir, ferðamenn eða aðrir, borga hærra. Þannig getur jafnaðarmannahugsjónin komið mjög vel fram í kerfinu til að koma til móts við íbúa og jafna aðstöðu manna, sama hvort það er í ferðum þeirra prívat eða vegna flutningskostnaðar.

Almenna reglan? Jú, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður talar um lituðu olíuna eða olíukerfið sem við tókum upp þar sem við ætluðum að leggja af þungaskattskerfið til einföldunar. Það náðist nú ekki. Þungaskatturinn lifir enn þá, því miður, en litaða olíukerfið — eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði á þingflokksfundi hjá sjálfstæðismönnum í dag þá man ég þá tíð þegar ég og hv. þingmaður töluðum frekar fyrir því að taka upp GPS-staðsetningartækin, eða þetta kerfi, í þá bíla sem áttu að vera á lituðu olíunni. Það hefði betur verið gert, virðulegi forseti, þá væri ekki verið að misnota það kerfi eins og því miður ýmislegt bendir til að sé gert.