138. löggjafarþing — 132. fundur,  7. júní 2010.

stjórn vatnamála.

651. mál
[23:16]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stjórn vatnamála sem starfandi umhverfisráðherra í fjarveru hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur.

Hér er um að ræða innleiðingu tilskipunar sem Evrópusambandið samþykkti árið 2000 sem var tilskipun um aðgerðaramma bandalagsins um stefnu í vatnamálum sem nefnd hefur verið vatnatilskipunin. Hér er um að ræða rammalöggjöf sem var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hinn 28. september 2007. Ákvörðunin var staðfest af Alþingi með þingsályktun 6. desember sama ár og er frumvarp þetta lagt fram til að innleiða skipunina í íslenskan rétt.

Markmið frumvarpsins er að kveða á um verndun vatns, hindra rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vistkerfa vatna og votlendis og vistkerfa sem beinlínis eru háð vatni til að tryggja heildstæða vernd vatns. Frumvarpinu er ætlað að tryggja sjálfbæra nýtingu vatns sem byggist á langtímavernd vatnsauðlindarinnar sem er ein dýrmætasta auðlind jarðarinnar. Markmiðið endurspeglar mikilvægi vatnsauðlindarinnar og nauðsyn þess að vel sé gengið um hana en frumvarpið miðar að því að byggja langtímavernd og því markmiði sé náð með heildstæðum hætti þannig að horft sé bæði til verndar og nýtingar.

Hér á landi hafa ýmsar reglugerðir verið settar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eða draga úr mengun vatns og fjölmargar Evrópureglugerðir hafa verið settar er varða mengun vatns og hafa þær verið teknar upp á grundvelli EES-samningsins. Þar er vísað í meginatriðum til Evrópureglugerðanna um sama efni sem nú falla undir vatnatilskipunina. Vatnatilskipunin tekur þó ekki eingöngu til mengunar því að undir tilskipunina fellur nánast allt sem getur haft áhrif á ástand vatns og lífríki vatna. Tilskipunin gerir ráð fyrir samþættingu í stjórn vatnamála og að fjallað sé um málefni vatns heildstætt. Hún tekur til verndar á vatni og vistkerfum í vötnum og vistkerfum sem tengjast vötnum, þar með talið til sjálfbærrar nýtingar á vatni með verndarsjónarmið að leiðarljósi. Vatnsgæði eru skilgreind með hliðsjón af líffræði, efnafræði og umgerð vatna. Meginmarkmið tilskipunarinnar er annars vegar að hindra að vatnsgæði rýrni meira en orðið er og hins vegar að bæta ástand vatna í þeim tilfellum þar sem það er mögulegt samfara nýtingu þeirra. Markmiðin eru þríþætt og endurspeglast í frumvarpinu. Í fyrsta lagi eru hin almennu verndarsjónarmið, í öðru lagi að laga stjórnkerfi að því að taka heildstætt á vatnamálum og framkvæma aðgerðir til að bæta úr ástandi vatns, koma á samræmdum mats- og eftirlitskerfi og söfnun og miðlægri greiningu upplýsinga um ástand vatnsumhverfisins til að stjórnvöld hafi nauðsynlegar upplýsingar til að taka ákvörðun um skynsamlega sjálfbæra stefnumörkun í vatnamálum. Í þriðja og síðasta lagi er að koma á samræmi við almenning sem byggist á gagnsæi og birtingu upplýsinga.

Nú er ljóst að nokkur kostnaður mun óhjákvæmilega fylgja því að tryggja langtímavernd vatnsauðlindarinnar og hindra frekari rýrnun vatnsgæða þannig að gæðum auðlindarinnar hraki ekki. Í umhverfisráðuneytinu er hafinn undirbúningur að því að skoða gjaldtöku á atvinnurekstur sem nýtir vatnsauðlindina í samræmi við hina almennu mengunarbótareglu og nytjagreiðsluregluna. Í nytjagreiðslureglunni felst að þeir sem nýta auðlindir skuli standa undir nauðsynlegum eftirlitskostnaði sem tryggir að ekki sé gengið á viðkomandi auðlindir. Undir starfsemi sem nýtir sér vatnsauðlindina með einum eða öðrum hætti hér á landi falla til að mynda vatnsaflsvirkjanir, vatnsveitur, landbúnaðarstarfsemi, fráveitur, mengandi atvinnurekstur og matvælaframleiðsla. Vinna þarf sérstakt lagafrumvarp til að mæla fyrir um slíka gjaldtöku og verður lögð rík áhersla á að skapa víðtæka sátt um hana en gert er ráð fyrir að hún geti staðið undir stórum hluta framkvæmd vatnatilskipunarinnar hér á landi og verður lögð áhersla á að ekki verði stofnað til óþarfa kostnaðar við þá framkvæmd og hún verði í senn einföld og hagkvæm.

Frumvarpið sem hér er til umræðu er sett fram í fimm köflum. Í I. kafla er ákvæði um markmið og gildissvið og skilgreiningar.

II. kafli fjallar hins vegar um hvaða stjórnvöld fara með stjórn vatnamála og er lagt til að sett verði á laggirnar svokallað vatnaráð. Umhverfisstofnun og sveitarfélög gegna þar líka hlutverki við að framfylgja ákvæðum laganna. Vatnasvæðanefndum er ætlað að vera samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila og afla upplýsinga um viðkomandi svæði. Þá er í kaflanum gerð grein fyrir hlutverki rannsóknastofnana og samráðsaðila sem ráðgjafarnefndar við framkvæmd vatnsverndar. Gert er ráð fyrir að bæði ráðgjafarnefndir og ráðgjafarnefnd fagstofnana og eftirlitsaðila og ráðgjafarnefnd tiltekinna hagsmunaaðila og frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndar og umhverfismála verði stjórnvöldum til ráðgjafar. Enn fremur er lagt til að eitt vatnaumdæmi verði hér á landi og er gerð grein fyrir afmörkun vatnaumdæmis í viðauka I sem fylgir frumvarpinu.

Í III. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um þau umhverfismarkmið sem þarf að ná til að uppfylla kröfur um gæði vatns og í hvaða tilvikum er hægt að víkja frá kröfum um umhverfismarkmið.

Í IV. kafla er gerð grein fyrir vatnastjórnunaráætlun, aðgerða- og vöktunaráætlun en þær áætlanir eru tæki til að ná fram í heildstæðri verndun vatns og gerð er grein fyrir hvernig ætlunin er að fylgja þeim eftir. Gert er ráð fyrir að unnin verði stöðuskýrsla til að sýna fram á núverandi ástand vatns.

Í V. kafla frumvarpsins eru ákvæði um hvernig eigi að kynna vatnastjórnunaráætlunina til að ná fram sem víðtækustu samráði við gerð hennar og hvaða réttaráhrif hún mun hafa gagnvart gerð skipulags og útgáfu leyfa.

Vatnaumdæmið sem gert er ráð fyrir að landið myndi mynda stjórnsýslueiningu um þá þætti sem þarf að vinna að vegna vatnsverndar. Ekki var talin þörf á að hafa fleiri vatnaumdæmi en eitt hér á landi því að Ísland er eyja og ekki með aðliggjandi vatnasvæði við önnur lönd, svo og vegna vatnafars hér á landi. Eitt vatnaumdæmi eykur skilvirkni við stjórnun vatnsverndar, tryggir meiri yfirsýn og samræmdari vinnu og vinnubrögð. Gert er ráð fyrir að vatnaráð sem skipað verði fulltrúum ríkis og sveitarfélaga hafi yfirumsjón með starfi vatnaumdæmisins. Því skal skipt í vatnasvæði samkvæmt ákvörðun í reglugerð og á hverju vatnasvæði skal starfrækt vatnasvæðanefnd og eru fulltrúar frá sveitarfélögum viðkomandi vatnasvæðis, heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga á svæðinu og frá Umhverfisstofnun í nefndinni.

Vatnaráðið mun hafa mjög þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Umhverfisráðherra mun skipa það til fimm ára í senn samkvæmt tillögum frumvarpsins en þar er lagt til að Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefni tvo fulltrúa, iðnaðarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilnefni hvor um sig einn og umhverfisráðherra skipi formann án tilnefningar. Hér er því um að ræða stjórnvald sem er skipað fulltrúum bæði ríkis og sveitarfélaga. Þetta er í samræmi við það sjónarmið að eðlilegt sé að líta á framkvæmd þeirra verkefna sem frumvarpið mælir fyrir um sem sameiginlegt viðfangsefni ríkis og sveitarfélaga.

Yfirstjórn vatnsverndar á landsvísu er í höndum umhverfisráðherra og vatnaráðs en ýmis umfangsmikil verkefni er varða stjórnsýslu vatnamála eru á forræði viðkomandi sveitarstjórna. Sveitarfélögin fara þannig með skipulagsvald, veitingu starfsleyfa fyrir mengandi starfsemi og framkvæmdaleyfa og annast eftirlit og framkvæmd vatnsverndar að miklu leyti.

Stjórnsýsla vatnamála er á höndum margra sem koma með einum eða öðrum hætti að ákvörðunum er snerta vatn. Því er lagt til að vatnaráð verði skipað fulltrúum þeirra ráðuneyta sem fara með stjórn vatnamála hér á landi og sveitarfélaganna sem fara með veigamikinn þátt í framkvæmd vatnsverndar til að tryggja aðkomu allra þeirra sem fara með stjórn og framkvæmd vatnsverndar.

Hlutverk vatnaráðs er að móta stefnu um stjórn vatnamála í samræmi við markmið laganna. Meginverkefni ráðsins er að hafa yfirumsjón með starfi Umhverfisstofnunar við gerð tillögu að vöktunaráætlun, aðgerðaáætlun og vatnastjórnunaráætlun fyrir vatnaumdæmi og gera tillögur til umhverfisráðherra um staðfestingu þessara áætlana. Í yfirumsjóninni felst m.a. að taka efnislega afstöðu til tillagna Umhverfisstofnunar og gæta þess að framangreindar áætlanir hafi verið unnar í samræmi við ákvæði laganna verði frumvarp þetta að lögum. Lagt er til að Umhverfisstofnun annist daglegan rekstur og umsýslu vatnaráðs og sé vatnaráði til ráðgjafar. Jafnframt er eins og áður sagði gert ráð fyrir að vatnaumdæminu verði skipt í nokkur vatnasvæði og vatnasvæðanefndirnar starfi á hverju svæði en hlutverk þeirra verður að samræma vinnu við gerð skýrslna og áætlana fyrir viðkomandi svæði. Umhverfisstofnun er ætlað að annast alla stjórnsýslu í samræmi við ákvæði frumvarpsins og ber þannig að samræma vinnu við gerð þeirra áætlana í nánu samráði við viðkomandi sveitarfélög, vatnasvæðanefndir og ráðgjafarnefndir. Sérstaklega eru tilgreind hlutverk Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnunarinnar og Veiðimálastofnunar vegna mikilvægis þessara stofnana varðandi öflun gagna og upplýsinga fyrir framkvæmd frumvarpsins. Mikil áhersla er lögð á víðtækt samráð við ráðgjafarnefndir og að þær og vatnasvæðanefndir leggi fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn vegna þess starfs sem vinna þarf að á grundvelli frumvarpsins. Rík áhersla er lögð á opinbera upplýsingagjöf og samráð við almenning við framkvæmdina sem á að tryggja gagnsæi við gerð áætlana og að öllum sjónarmiðum verði komið á framfæri.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að unnin verði heildstæð vatnastjórnunaráætlun með tilheyrandi aðgerðaáætlun fyrir árið 2015. Umhverfisstofnun á að annast gerð tillögu að vatnastjórnunaráætlun fyrir vatnaumdæmi í samvinnu við sveitarfélög. Umhverfisráðherra ber svo að staðfesta fyrstu vatnastjórnunaráætlunina eigi síðar en 1. janúar 2018. Vatnastjórnunaráætlunin á að vera almenn lýsing á eiginleikum vatnaumdæmisins og flokkun vatnshlota, lýsing á umtalsverðu álagi og áhrifum af starfsemi á ástand vatns í vatnaumdæminu og skráning á vernduðum svæðum og öllum vatnshlotum við neysluvatnstöku, en vatnshlot er einmitt nýyrði í frumvarpinu og snýr að einingu vatns. Áætlunin á að innihalda greinargerð um vöktun og niðurstöðu vöktunar er gera skal í samræmi við vöktunaráætlanir. Í vatnastjórnunaráætluninni skal skilgreina umhverfismarkmið fyrir vatnshlot á Íslandi, fjalla um skiptingu vatnaumdæmis í vatnasvæði og gera samantekt á aðgerðaáætlun og yfirlit yfir nánari aðgerðir og samráði við almenning. Virkt samráð við almenning, frjáls félagasamtök, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila er grunnur að því að vel takist til í stjórnun vatnamála hér á landi.

Umhverfisstofnun er ætlað að annast gerð tillögu að aðgerðaáætlun fyrir vatnaumdæmi Íslands er tekur til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að ná fram þeim umhverfismarkmiðum sem sett hafa verið fyrir hvert vatnshlot í vatnaumdæminu en vatnshlot er skilgreint sem eining af vatni, oft afmörkuð sem t.d. allt það vatn sem er að finna í einu stöðuvatni, á eða strandsjó. Gert er ráð fyrir að aðgerðaáætlun verði hluti af vatnastjórnunaráætlun. Í aðgerðaáætlun skal telja upp þær ráðstafanir sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum og enn fremur þær viðbótarráðstafanir sem lagt er til að ráðist verði í til að settum umhverfismarkmiðum verði náð. Aðgerðaáætlun skal liggja fyrir í síðasta lagi árið 2018.

Umhverfisstofnun á jafnframt að gera áætlun um vöktun á ástandi yfirborðsvatns, grunnvatns og vöktun svæða sem njóta verndar innan vatnaumdæmisins. Skal vöktunaráætlunin veita heildarsýn á ástand vatnshlota eða einingar vatns. Vöktunaráætlun skal liggja fyrir eigi síðar en árið 2015 en þá skal Umhverfisstofnun einnig annast gerð stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði í samvinnu við viðkomandi vatnasvæðanefnd og skal skýrslan liggja fyrir árið 2013. Í stöðuskýrslu skal koma fram lýsing á vatnshlotum og upplýsingar um gerð þeirra, um flokkun vatns og lýsing á helsta álagi og áhrifum af starfsemi manna á ástand vatns. Í samræmi við stöðuskýrslu þarf síðan að vinna vöktunaráætlun.

Þetta kann að virka flókið í eyrum einhverra en eigi að síður er ætlunin með þessu að einfalda í raun stjórnsýsluna sem hér er mælt fyrir og mestu máli skiptir að hún verði skilvirk og samhæfð fyrir allt vatn, hún verði gagnsæ og lýðræðisleg. Frumvarpið mælir því fyrir um stjórnarfyrirkomulag til að tryggja markmiðin sem snúast um langtímaverndun vatns, að setja upp kröfur um umhverfismarkmið og kveður á um hvernig þeim verði náð. Frumvarpið kallar enn fremur á að settar verði reglugerðir til að útfæra ýmsa þætti frumvarpsins.

Vatnatilskipuninni fylgja tíu viðaukar og varða þeir m.a. fyrirmæli um nánari útfærslu ákvæða tilskipunarinnar. Einn viðaukinn sem fjallar um efni vatnastjórnaráætlunarinnar fylgir frumvarpinu og er áhugavert lesefni fyrir hv. þingmenn sem munu kynna sér þessi mál.

Eins og hér hefur komið fram er verið að horfa til lengri tíma og er lögunum ætlað að koma til fullra framkvæmda á nokkuð löngum tíma eða frá gildistöku laganna til ársins 2024. Það er rétt að nefna það hér að eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur lagt ríka áherslu á að innleiðingu tilskipunarinnar verði flýtt og hefur sent íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit um aðgerðir af þeirra hálfu og tilkynnt að stofnunin fari að undirbúa dómsmál í haust ef tilskipunin verði ekki innleidd í íslenskan rétt fyrir þann tíma þannig að það er mjög mikilvægt að mælt sé fyrir þessu hér.

Ég hef, hæstv. forseti, gert grein fyrir helstu efnisatriðum og mun nú leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr. og málið verði þar tekið til umfjöllunar og reikna með að þar verði löng, góð og ítarleg umfjöllun um þessa miklu og dýrmætu auðlind.