138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga í dag orðaskipti við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson sem hefur í þessum ræðustól og annars staðar rukkað stjórnarliða um gegnsæ og vönduð vinnubrögð. Svo sannarlega eigum við þingmenn alls staðar að gera kröfu um slíkt en skilgreint og markvisst og þannig að við séum sjálfum okkur samkvæm. Annars er hætt við að hljómurinn í kröfunni verði hjáróma.

Mig langar að vitna í orð hv. þingmanns þegar hann átti orðastað við hæstv. forsætisráðherra um launamál seðlabankastjóra í þingsal í gær. Hann talaði um að útskýringar yrðu að vera réttar, að upplýsa ætti rétt um tiltekin mál og ef slíkt væri ekki gert væri um pólitíska spillingu að ræða. Í ljósi þessarar orðanotkunar hv. þingmanns langar mig til að inna hann eftir því, í ljósi gegnsæis og vandaðra vinnubragða, hvenær hann hyggst greina frá því hverjir þeir aðilar eru sem styrktu þátttöku hans í prófkjöri vegna alþingiskosninganna árið 2007. Hv. þingmaður þáði þar styrki frá lögaðilum og einstaklingum upp á 4.650.000 kr. Þar af eru 2.250.000 kr. yfir þeirri lágmarksupphæð þar sem þarf að tilgreina styrkveitanda sérstaklega.

Mig langar að endurtaka orð hv. þingmanns frá því í gær, útskýringar þurfa að vera réttar og upplýsa þarf rétt til að koma í veg fyrir pólitíska spillingu. Ég vona að svar hans við spurningu minni verði í takt við hans eigin orð.