138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ástunda vönduð vinnubrögð og á erfitt með að sætta mig við það þegar ég spyr hæstv. ráðherra einfaldra spurninga að þeim sé ekki svarað. Það hefur gerst hér ítrekað.

Nú er þetta seðlabankamál greinilega orðið svo óþægilegt fyrir Samfylkinguna að hv. þm. Jónína Rós (Gripið fram í.) Guðmundsdóttir er send á vettvang til að gera vandamál hæstv. forsætisráðherra sem blöstu við öllum í þingsalnum í gær, og reyndar líka í Kastljóssþætti sjónvarpsins, að annarra manna vandamálum og það er reynt að drepa seðlabankamálinu á dreif (Gripið fram í.) með þeim hætti sem hér er rætt.

Varðandi prófkjör mín get ég upplýst hv. þingmann um að ég hef farið í þrjú prófkjör, fyrst á árinu 2002. Ætli kostnaðurinn við það hafi ekki verið 1,8 millj. kr. sem að stórum hluta rann úr mínum vasa. Prófkjör mitt 2006 kostaði 4,6 millj. kr. og á árinu 2008 1,3 millj. kr. Ég hef upplýst um þá styrktaraðila sem mér ber skylda til að upplýsa um.

Það kemur fram í rannsóknarskýrslunni að ég fékk styrk frá Landsbanka Íslands. Það er ekkert leyndarmál að það hefur komið fram. Skýrslan sýnir það hins vegar og sannar að ég er ekki nema hálfdrættingur í því sambandi á við ýmsa samflokksmenn hv. þingmanns sem hafa verið styrkþegar frá Landsbanka Íslands, (Gripið fram í.) eins og hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. samgönguráðherra. Ég held að hv. þingmaður ætti kannski að eiga orðastað við sína eigin flokksmenn áður en hún fer fram með þessum hætti.

Það er sjálfsagt að ræða þessi mál. Ég hef fylgt öllum þeim reglum sem mér er skylt að fylgja. Ég hef skilað inn þeim uppgjörum sem mér ber skylda til lögum samkvæmt varðandi þau prófkjör (Forseti hringir.) sem ég hef farið í og að svo komnu er það að mínu mati fullnægjandi.