138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra hélt því fram í viðtali í Kastljósi í gær að hún hefði hvorki komið nálægt umræðum né ákvörðunum um launakjör eins æðsta embættismanns þjóðarinnar, seðlabankastjóra. Henni komu launakjör embættismanna þjóðarinnar ekkert við. Öll samskipti vegna þessa umrædda embættismanns voru á vegum annarra aðila sem reyndar eru hennar eigin trúnaðarmenn.

Hér hefur orðið ótrúlegur viðsnúningur í málflutningi hæstv. forsætisráðherra gagnvart embættismönnum í Seðlabanka Íslands því að fyrir rúmu ári komst ekkert annað að í höfði hæstv. forsætisráðherra en þáverandi seðlabankastjórar, störf þeirra og kjör, og ekki síður áhugi ráðherrans á því að koma öðru fólki í stól seðlabankastjóra. Hæstv. forsætisráðherra er, hvað sem þingmenn Samfylkingarinnar segja í þessum sal í dag, komin í algjörar ógöngur í málflutningi sínum um launakjör bankastjórans og bendir í allar áttir þegar spurt er einfaldra spurninga um kjör hans.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram í viðtali við hv. þm. Helga Hjörvar að sú breyting sem gerð var á lögum í sumar og gerði mönnum kleift að hækka laun bankastjórans hafi komið úr forsætisráðuneytinu. Í Kastljósi í gær hafnaði hæstv. forsætisráðherra því alfarið að hafa farið fram á þessa breytingu, hafnaði alfarið orðum formanns efnahags- og skattanefndar, samflokksmanns síns, sem þarna greindi frá staðreyndum máls. Það er því óhjákvæmilegt að spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í efnahags- og skattanefnd:

1. Hvernig kom það til að þessi breyting var gerð síðasta sumar?

2. Hver fór fram á að þessi breyting yrði gerð?

3. Hver voru rökin fyrir breytingunni?