138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég er fegin að hv. þingmaður beinir spurningu sinni til mín í þessu máli sem Sjálfstæðisflokkurinn er beinlínis kominn með á heilann. Ég var farin að halda að ég skipti svo litlu máli í þinginu að enginn ætlaði að ræða það við mig. Ég er því mjög fegin að sjá að ég tilheyri þeim skara fólks sem telst heppilegt til að ræða þetta. Þetta mál hefur verið svo mikið rætt að ég veit eiginlega ekki hvað þingmaðurinn vill ræða meira. (Gripið fram í: Staðreyndir.) — Já, hv. þingmenn biðja um staðreyndir. Mjög margar staðreyndir hafa komið fram í málinu en það er sama hvað sagt er hv. þingmenn vilja ekki horfast í augu við sannleikann í því.

Málið er þannig vaxið að í efnahags- og skattanefnd kom bandormur með breytingum um launakjör forstöðumanna hjá ríkinu. Við ræddum málið þó nokkuð ítarlega, fengum marga gesti á okkar fund til að ræða það, þar á meðal kjararáð sem upplýsti nefndina um að eftirlaunakjör væru ekki ákveðin af kjararáði, og kemur það skýrt fram í umsögn kjararáðs um þessar lagabreytingar. (Gripið fram í.) Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hefur komið inn á er frumvarpið lagt fram af forsætisráðuneytinu og forsætisráðuneytið kom með breytingartillögu í anda þess sem kjararáð hafði rætt og einnig varðandi önnur kjör seðlabankastjóra, enda held ég að bankaráðinu sé fullkomlega treystandi til að taka slíkar ákvarðanir.

Ég hef ekki mikið meira um málið að segja. Við höfum fjallað ítarlega um það í nefndinni, fengið gesti sem skiluðu öllum tölvupóstum um þessi samskipti og minnisblað ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins varðandi samskiptin við formann bankaráðsins sem hefur staðfest það. Ég held að málið liggi algerlega ljóst fyrir.