138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum mál sem hefur eðli máls samkvæmt vakið nokkuð mikla athygli. Það má spyrja sig af hverju svo er en það er algerlega í samræmi við það sem við höfum séð, þ.e. að verkstjóri ríkisstjórnarinnar veit almennt ekki hvað er að gerast á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Hún hefur farið nákvæmlega yfir það að hún hafi ekki eina einustu hugmynd um hvað gerist í ráðuneytinu og er það í samræmi við það sem komið hefur fram í flestum málum sem tengst hafa þjóðmálum eftir að hæstv. forsætisráðherra tók við embætti. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallar fram í. Eigum við að fara yfir það hversu oft hæstv. forsætisráðherra hefur sagst koma af fjöllum? Eigum við að nefna t.d. meðferð bankanna á fyrirtækjunum? Eigum við að nefna það hvernig hæstv. forsætisráðherra tjáði sig um það? Sömuleiðis um skuldavanda heimilanna, eigum við að fara yfir það, helsta mál ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra? Núna kemur þetta draumamál hæstv. forsætisráðherra, þ.e. að allir eiga að vera með lægri laun en hún sjálf, og í ljós kemur að trúnaðarmaður forsætisráðherra, nánar tiltekið Lára V. Júlíusdóttir, hefur verið að uppfylla samkomulag, og hæstv. forsætisráðherra kemur algerlega af fjöllum.

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmönnum finnst þetta hið eðlilegasta mál, þeim sem styðja stjórnina. En einhvern tíma hefði þetta þótt slök verkstjórn.