138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst hafa orð á því hversu merkileg þessi styrkjaumræða er í þingsalnum. Þar takast Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn á um það hvor fékk fleiri aura frá hinum títtnefndu útrásarvíkingum. Ég held að einfaldast væri fyrir þessa ágætu flokka að taka undir með okkur sem höfum sagt að réttast væri að kjósa fljótlega til að menn fái endurnýjað umboð. Hægt væri að láta þjóðina ákveða það hverjum hún treystir til að vera hér áfram og ekki síst ef menn vilja efla veg Alþingis. Ég bið ágæta þingmenn þessara flokka að íhuga það vandlega.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort vandræðagangurinn á stjórnarheimilinu sé slíkur að ekki sé hægt að taka ákvarðanir um tiltölulega einföld mál, þ.e. mál sem að mínu viti eru einföld. Það hefur komið í ljós að ekki hefur verið hægt að gera nýjan búnaðarlagasamning, samning sem rennur út um áramót, og nú blasir við að segja þarf upp ráðgjöfum, ráðunautum og starfsfólki hjá Bændasamtökunum vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til að ganga frá samningi við Bændasamtökin. Hvað skýrir það að ekki er hægt að ganga frá þeim samningi? Er það vegna þess að leggja á niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið og menn hafa ekki treyst sér til að gera samninginn áður en það verður gert? Eða er það vegna þess að samkvæmt kröfu Evrópusambandsins á að búa til nýja stofnun sem á að taka að sér verkefni Bændasamtakanna því að Evrópusambandinu þóknast ekki að Bændasamtökin sinni þeim verkefnum sem þau hafa sinnt? Er það ástæðan?

Hverju sem líður er það vitanlega óþolandi, frú forseti, að stjórnvöld skuli skilja enn eina atvinnugreinina eftir í uppnámi út af ákvörðunarfælni sinni.