138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

notendastýrð persónuleg aðstoð við fólk með fötlun.

354. mál
[11:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis eins og aðrir þingmenn fagna afgreiðslu þessa máls. Það er tvímælalaust framfaraskref fólgið í þessari stefnumótun. Það bíður hins vegar mikil vinna við að útfæra þetta á vegum ríkis og eftir atvikum kannski meira sveitarfélaganna verði af færslu málefna fatlaðra þangað yfir. Ég er sannfærður um að þetta er rétt stefna óháð aðstæðum þótt þær séu vissulega erfiðar. Hvort tveggja á að vera hægt, að gera þessa þjónustu persónulegri og betri og ekki síður að ná árangri við að veita hana á hagkvæman hátt þótt það sé gert á þessum forsendum. Þetta er mannréttindamál, þetta er sjálfstæðismál og jafnréttismál sem varðar okkur öll og það er ánægjulegt að inni á milli, eins og hér var sagt, karpsins sem hér fer fram um mismerkilega hluti gerast þeir atburðir að við sameinumst öll um hluti af þessu tagi.

Úr því að menn nefndu hér nöfn, þótt það orki alltaf tvímælis að gera slíkt þegar baráttumenn fyrir góðum málum eiga í hlut, leyfi ég mér að bæta í þann hóp nafni sem ég heyrði ekki áðan og það er Guðmundur Magnússon, núverandi formaður Öryrkjabandalags (Forseti hringir.) Íslands.