138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:59]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið en mig langaði að leggja orð í belg af því að við erum að ræða mál sem átti að leiða til hagræðingar í heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðisráðherra flutti mál sem unnið var í heilbrigðisráðuneytinu um að fella úr lögum niðurnjörvað fyrirkomulag á yfirstjórnun á sjúkrahúsum, þ.e. ákvæði um yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga átti að verða opnara. Hver stofnun gæti haft þetta eftir sínu höfði og meiri sveigjanleika. Þetta átti að leiða til hagræðingar án þess að skerða þjónustu. Þetta var annað ákvæðið.

Hitt ákvæðið laut að heilsugæslunni. Það var á svipuðum nótum og átti að tryggja að hægt væri að hafa einn yfirlækni og einn hjúkrunarfræðing á heilsugæslu sem tæki til nokkurra heilsugæslustöðva. Þá gætu orðið til klasar heilsugæslustöðva, saman með einn yfirlækni og einn hjúkrunarfræðing, þannig að á minni heilsugæslustöðvum og á höfuðborgarsvæðinu þyrfti ekki að vera einn á hverjum stað.

Við höfum greitt atkvæði um 1. gr. í frumvarpinu, meiri hlutinn samþykkti en við flestöll í stjórnarandstöðunni, ef ekki öll, sátum hjá. Breytingartillaga meiri hlutans, 1. gr., var samþykkt og þá var hlaupið frá því sem ráðuneytið og hæstv. ráðherra ætluðu sér. Það er að mínu mati talsverður galli og reyndar stór galli að hlaupa frá því sem lagt var upp með og átti að leiða til hagræðingar.

Meiri hlutinn gerði breytingu á hinni greininni en að mínu mati er innihaldið hið sama, þ.e. hún nær því fram sem heilbrigðisráðuneytið og hæstv. heilbrigðisráðherra ætluðu sér. Það verður hægt að hafa einn yfirlækni og einn yfirhjúkrunarfræðing á nokkrum heilsugæslustöðvum saman. En það voru gerðar einhverjar orðalagsbreytingar sem ég skil ekki af hverju voru gerðar því að mínu mati er niðurstaðan sú sama.

Stóra málið er 1. gr. sem meiri hlutinn breytti. Hann hleypur þá frá því sem heilbrigðisráðuneytið og hæstv. heilbrigðisráðherra vildu og minnkar líkurnar á því að við náum fram hagræðingu. Ég er ekki sammála því sem meiri hlutinn hefur haldið fram í heilbrigðisnefnd, að hægt sé að ná fram hagræðingu óháð þessu lagafrumvarpi, sem sagt 1. gr. Til hvers vann þá heilbrigðisráðuneytið 1. gr., til hvers setti hæstv. heilbrigðisráðherra hana inn ef þetta skiptir engu máli? Ég tel að hæstv. heilbrigðisráðherra og ráðuneytið hafi haft rétt fyrir sér en ekki meiri hluti Alþingis. Mér finnst þetta skaði. Heilbrigðisþjónustan er svo umfangsmikil hjá okkur, hún kostar mikla peninga, við fáum sem betur fer mjög mikið út úr henni og getum verið mjög stolt af henni en hún tekur auðvitað mikið fjármagn til sín. Þess vegna þarf að hagræða í heilbrigðisþjónustunni þegar kreppir að. Við verðum að fara í gegnum það og ég held að það vilji allir gera. En þegar meiri hlutinn fellir þá tillögu sem átti að leiða til hagræðingar þá efast ég um að viljinn til að hagræða sé virkilega nógu góður.

Ef horft er á það sem hefur komið frá hæstv. heilbrigðisráðherra á þessu þingi þá tekur það eiginlega ótrúlega lítið til hagræðingar. Nokkur mál hafa farið í gegn og ég ætla að nefna þau. Það eru lyfjalög, gildistaka ákvæðis um smásölu. Ágætismál en lýtur ekki að hagræðingu svo teljandi sé. Það eru sjúkratryggingar, gjaldtaka fyrir dvöl á sjúkrahóteli. Fínt mál, við studdum það öll en það er ekki hagræðingarmál. Kvartað var til umboðsmanns Alþingis um greiðslu fyrir dvöl á sjúkrahóteli og þá ákvað þingið að bregðast við með því að setja ramma um hvernig á að greiða fyrir dvöl á sjúkrahóteli. Þetta er ekki hagræðing, þetta er bara svona tiltekt. Síðan er það mál sem heitir sjúkratryggingar, frestun gildistökuákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir. Það snýst um hvernig gera eigi samninga af hálfu ríkisins um hjúkrunarheimili sem aðrir reka, einkaaðilar og sveitarfélög. Ágætismál, það þurfti að fresta þessu, þetta er eiginlega bara lapsus í kerfinu, ekki hagræðingarmál. Síðan er það brottfall laga um afkynjanir. Það er gott mál, ekki hagræðingarmál. Svo er það tæknifrjóvgun með gjafaeggjum og gjafasæði. Gott mál, allir sameinuðust um það. Þetta er ekki hagræðingarmál. Núna eru þrjú mál í farvatninu. Það eru bólusetningar gegn pneumókokkum barna, bólusetningar gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini og mál vegna ljósabekkja, að banna notkun barna á ljósabekkjum Allt mjög góð mál að mínu mati en ekki hagræðingarmál.

Eina hagræðingarmálið er það sem við fjöllum um núna á lokasprettinum. Það fer svo að meiri hluti þingsins bakkar út úr því. Hv. þm. Þuríður Backman, formaður heilbrigðisnefndar, sem stendur sig með prýði í því hlutverki að mínu mati, sagði áðan að það væri ekki rétt að við færum fram úr ráðuneytinu varðandi hagræðingarkröfur og skipulagsbreytingar. Ég er svo sem sammála því. Við þurfum kannski ekki að gera það á þessu stigi. Kannski förum við einhvern tímann fram úr ráðuneytinu. Í þessu máli, sem við erum að gefast sennilega upp í núna, er alls ekki verið að fara fram úr ráðuneytinu. Það er verið að bakka út úr því sem ráðuneyti og hæstv. heilbrigðisráðherra lögðu til. Ég geri verulegar athugasemdir við það. Ég tel að heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytið þurfi að vinna hratt og örugglega að því að koma með tillögur um hvernig á að ná sparnaði í heilbrigðisþjónustunni. Það hafa komið tillögur fram á þinginu og farið fram umræða um hvernig það sé hægt. Rætt hefur verið um valfrjálst tilvísunarkerfi og okkur er kunnugt um að hæstv. heilbrigðisráðherra er að láta vinna slíkar hugmyndir í nefnd í heilbrigðisráðuneytinu. En það þarf að setja mjög mikinn kraft í þessi mál. Að mínu mati þarf að gera kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni til að ná fram sparnaði og þá er ekki rétt að hefja þá vegferð með því að bakka út úr eina frumvarpinu sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt fram og átti að verða til örlítillar hagræðingar. Þetta er ekki mikil hagræðing. Það að geta breytt yfirstjórnum heilbrigðisstofnana er auðvitað bara dropi í hafið en svo er bakkað út úr því. Ég er ekki sátt við að það verði lögfest.