138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið merkilegt að sú er hér stendur skuli verja núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega og standa fyrir því máli sem hæstv. ráðherra flutti, í röksemdafærslu gegn formanni heilbrigðisnefndar sem er þó úr sama flokki. Það er merkileg staða. Það var ekki þannig að hæstv. heilbrigðisráðherra Álfheiður Ingadóttir hafi lagt málið fram til að draga úr faglegri ábyrgð í heilbrigðisþjónustu. Halda menn það? Það var ekki tilgangurinn. Það kom skýrt fram í frumvarpinu að það átti ekki að draga úr faglegri ábyrgð á heilbrigðisstofnunum, alls ekki. Hver vill gera það? Ekki sú er hér stendur og ekki hæstv. heilbrigðisráðherra heldur. Því er ekki hægt að halda fram með réttu, að mínu mati.

Hins vegar átti að fella úr lögum niðurnjörvað fyrirkomulag á innra skipulagi stofnana. Það gat leitt til þess að færri bæru faglega ábyrgð. Það þýðir að í dag, að mati margra, eru of margir sem bera faglega ábyrgð, óþarflega margir. Auðvitað vilja þeir sem bera hana bera hana áfram og fá greitt fyrir það. Þeir vilja ekki láta taka það af sér, ef það má orða það þannig. Maður skilur því að þær stéttir sem hér um ræðir rísi upp og mótmæli. En það er hlutverk okkar að reyna að hafa heilbrigðisþjónustuna sveigjanlega, góða, faglega og sem besta úr garði gerða. Við hefðum verið nær því takmarki hefðum við samþykkt upphaflegt frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra, að mínu mati. Þetta er ekkert stórslys eða neitt slíkt en við erum að fara í ranga átt. Við sköpum ekki svigrúm til hagræðingar, það svigrúm sem hefði getað náðst. Það fer fram hjá okkur með því að samþykkja ekki frumvarpið eins og það var lagt fram upphaflega.