138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með upphafsmanni umræðunnar að ýmislegu er áfátt í fjárlagagerðinni, en því miður er það ekkert nýtt. Það afsakar hins vegar ekki hvernig þetta er í dag en það tekur tíma að breyta. Ég hef því sagt það fyrr í ræðustól að ég er tilbúin að fyrirgefa þetta árið en ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hinar stóru línur í fjárlagagerðinni í því hvernig haga á t.d. stórum þáttum í heilbrigðisþjónustu, menntamálum eða hverju það er eigi að liggja fyrir í mars og í síðasta lagi í apríl. Þá er ég að tala um hina stóru drætti en ekki einstakar stofnanir. Þær geta síðan haft sinn tíma fram á haust til að setja niður rekstraráætlanir sínar. Þetta hefur ekki verið svona um árabil og er því miður ekki orðið svona núna og þess vegna liggur ekki fyrir í heilbrigðisnefnd hvernig skera á niður næsta ár. Auðvitað er miklu meira áríðandi í árferði eins og er núna þar sem gera þarf svo miklar breytingar að þetta liggi fyrir fyrr en ella. Ég held hins vegar að þeim sem vinna að þessum málum sé vorkunn, ég held að mikil vinna sé í gangi og ég vona að ekki líði mjög langur tími þangað til það liggur ljóst fyrir hvernig heilbrigðiskerfið á Íslandi er hugsað næsta árið eða tvö því að vonandi verður það þannig að við réttum einhvern tíma úr kútnum og getum … (PHB: ... ríkisstjórn.) Ég er ekki alveg viss um það, hv. þm. Pétur H. Blöndal, að ný ríkisstjórn í dag mundi breyta þessu vegna þess að við glímum við efnahagsástand sem varð til út af stjórnleysi sem ríkti hér í áratug og meira, næstum tvo.

En til að víkja að því frumvarpi sem er til umræðu vil ég segja þetta: Almennt er ég á móti því að festa í lög að einhver ákveðin manneskja eigi að vera á einhverjum ákveðnum gangi á einhverjum ákveðnum tíma. Hins vegar hlýtur að vera alveg ljóst að hjúkrunarfræðingar annast og bera ábyrgð á hjúkrun á spítölum hvar sem er. Það er líka ljóst að læknar hljóta að bera ábyrgð á læknisverkum. Það er líka ljóst að lyfjafræðingar hljóta að bera ábyrgð á lyfjaávísunum og öllu því sem varðar lyf. Það er hins vegar ekkert sem segir að fólk með þessa menntun þurfi endilega að stjórna deildum, stjórna spítölum eða stjórna apótekum. Það er ekkert sem segir að skólastjóri þurfi að vera kennari. Auðvitað þarf yfirkennari að vera kennari, það er alveg ljóst, og bera ábyrgð á því að kennslan fari fram. Það er ekkert sem segir að forstjóri flugfélags þurfi að vera flugmaður. Það er ekkert sem segir að maður sem rekur bifvélaverkstæði þurfi að vera bifvélavirki en hann þarf náttúrlega að sjá um að viðgerðirnar séu í lagi og vera yfir því. Það er svona mitt almenna viðhorf til lífsins að það sé alveg óþarfi að setja í lög að ákveðin manneskja þurfi að vera á einhverjum ákveðnum stað á einhverjum ákveðnum tíma ef hún ekki sinnir nákvæmlega því verki sem hún á að sinna, læknir t.d. að skera upp en ekki einhver annar.