138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki á því nefndaráliti sem hv. þingmaður vísar til. Við erum ábyggilega sammála um það, ég og hv. þingmaður, að ýmsu má breyta í heilbrigðiskerfinu. Ég er hins vegar alls ekki viss um að við séum sammála um hvernig á að gera það. Ég held að þar sé hægt að gera mjög margt. Ég held t.d. að með því að breyta framkvæmd lyfjalöggjafar, hvernig farið er með hana, væri hægt að lækka lyfjakostnað mjög fljótt. Ég minni hv. þingmann á að forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss kom til okkar á fund í heilbrigðisnefnd um daginn og lýsti hvernig gengur að ná niður rekstrarkostnaði þar og að vera innan áætlunar sem var mjög athyglisvert og má náttúrlega þakka bæði góðri stjórn en svo líka hinu, kreppunni, vegna þess að starfsfólk á Landspítalanum er núna tilbúið að gera alls konar hluti sem það var ekki tilbúið til áður, bara hver og einn starfsmaður fyrir sig. Þegar hinn stóri mannlegi máttur kemur saman er náttúrlega hægt að gera ýmislegt gott og það vona ég að okkur takist öllum að gera í framtíðinni og eiga þá kannski svona viðræður en reyna ekki alltaf að bregða fæti hvert fyrir annað.