138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að það er afskaplega mikilvægt að vera ekki að bregða fæti hvert fyrir öðru, það er ekkert unnið með því. Það kemur ekki á óvart að ég og hv. þingmaður séum sammála um hverju eigi að breyta í heilbrigðismálunum og það er samhljómur í mörgu. Síðan geta menn verið ósammála um hvernig á að fara að því, það getur vel verið, en ef við erum alla vega sammála um hverju eigi að breyta erum við komin á einhvern punkt. En jafnvel þó að við værum ekki sammála um alla hluti, sem er örugglega, held ég að stóra málið sé að ganga í verkefnin. Sem betur fer, af því að hér var nefndur Landspítalann, fór Landspítalinn í miklar breytingar löngu fyrir hrun, t.d. skipulagsbreytingar, fækkaði sviðum úr 21, ef ég man rétt, í 7. Hv. þingmaður þekkir það mjög vel og margar af þeim viðhorfsbreytingum sem hafa orðið komu fram fyrir þann tíma og það er ekki lítið. Landspítalinn ber höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir heilbrigðisþjónustunnar og er alveg ljóst að hann verður í forustu og menn munu líta til Landspítalans. Í ofanálag er Landspítalinn opinn allan ársins hring og sparnaður annars staðar kemur þess vegna beint niður á Landspítalanum og því þurfa menn að líta á þetta í heild sinni.

Ég skildi hv. þingmann svo að hún væri ekki sammála breytingum meiri hlutans þó svo að hv. þingmaður segði það ekki beint. Hv. þingmaður leiðréttir mig ef ég mistúlka orð hennar og ég biðst þá afsökunar á því ef ég hef gert það. Hins vegar svaraði hv. þingmaður því ekki hvort henni fyndist ekki eðlilegt að við fengjum betri umræðu um það hvernig menn ætla að framkvæma fjárlög þessa árs. Ég segi það einfaldlega vegna þess að ég tel það mjög mikilvægt og ég held að það sé m.a. mikilvægt fyrir hæstv. ríkisstjórn til að fá þá stuðning ef fara á í erfiðar aðgerðir. En mér hefur fundist tónninn vera þannig í þinginu að menn séu tilbúnir til að styðja erfiðar en nauðsynlegar aðgerðir.