138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara hv. þingmanni. Hann hefur óskað eftir því að farið verði yfir fjárlög þessa árs, fjárlög heilbrigðisþjónustunnar sem varðar þetta ár. Ég lét hv. heilbrigðisnefnd vita af áformum mínum strax í haust um að við mundum kalla reglulega til, a.m.k. ársfjórðungslega, fulltrúa ráðuneytisins til þess að gera grein fyrir því hve erfið rekstrarstaða heilbrigðisstofnana væri. Heilbrigðisráðuneytið kom eftir áramótin og eftir páska og þegar þriggja mánaða uppgjörið var komið. Það er ánægjulegt til þess að vita að langflestum stofnunum hefur tekist á þessum þremur fyrstu mánuðum að vera innan fjárlagarammans. Því miður eru nokkrar sem eiga í erfiðleikum og það verður fylgst mjög vel með þeim og það munum við gera áfram. Lengra komumst við ekki að sinni en þetta hefur verið gert og þó svo að ekki hafi verið farið í kragaverkefnið svokallaða á þessum tíma þá er verið að gera aðra hluti.

Ráðuneytið hefur gert nefndinni grein fyrir þeim áætlunum sem núna eru í gangi hvað varðar lyfin og það er verið að undirbúa breytingar á rekstri ýmissa stofnana. Sem dæmi má nefna skipulag Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og skipuleggja hana. Til að fara aðeins inn á frumvarpið sem við erum nú að ræða þá hafa núgildandi lög ekki haft nein hindrandi áhrif á skipulagningu þjónustu heilbrigðisstofnana Austurlands þau árin sem hún hefur unnið og verður horft til hennar með skipulagningu svæðisbundinna stofnana.

Ég tek undir orð hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur sem komu fram um rammafjárlögin að þau þurfi að koma fyrr fram til að hægt sé að sjá og skoða hvernig eigi að uppfylla þau og hvaða skipulagsbreytingar verði að fara í hvað varðar heilgbrigðisþjónustuna.