138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að rifja það enn og aftur upp, það er eins og menn bara gleymi því, að hér varð efnahagshrun. Við sitjum uppi með það að við erum ekki búin að vinna okkur út úr því og stjórnmálaflokkur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar átti fulla aðild að því hruni, með þeirri stjórnmálastefnu sem hann stendur fyrir.

Við þurfum að vinna okkur út úr hruninu, ég ætla að vona að stjórnmálaflokkur hv. þingmanns og þingmenn allir standi með okkur í því að koma okkur út úr þeim vanda sem við erum í núna. Og nú þýðir ekkert að halda áfram að þrýsta á hverja einustu stofnun um að halda áfram að spara, í svona efnahagshruni dugar ekkert annað en að við horfum á landið allt og sjáum hvernig við getum endurskipulagt heilbrigðisþjónustuna svo við molum hana ekki niður, svo við höldum grunnþjónustunni og með því verðum við að efla heilsugæsluna. Við þurfum að koma á valkvæðu tilvísunarkerfi, við þurfum að auka samstarf á milli stofnana, við þurfum að auka og koma á samþættingu milli heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar. Við þurfum að styrkja Landspítalann í þeirri skipulagsbreytingu sem þar á sér stað og undirbúa stofnunina fyrir að fara í nýjan spítala.

Hvað varðar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mun hún örugglega geta þjónað íbúum þessa svæðis vel þó að rekstrareiningarnar verði stærri og þær breytingar sem hér hafa verið gerðar og það frumvarp sem við erum núna að afgreiða gerir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mögulegt að stækka rekstrareiningarnar án þess að draga úr faglegri þjónustu.