138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir um margt ágæta framsöguræðu þar sem hann fór almennum orðum um ýmis sjónarmið sem gott er að hafa í huga varðandi setningu stjórnarskrár. Get ég tekið undir þær almennu hugleiðingar. Eins og fram kemur í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd er hins vegar enn um að ræða fullkominn ágreining um þá leið sem hér er lögð til varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skoðun á því hvort það væri ekki í anda þeirrar sáttar sem nauðsynleg er í samfélaginu að leita víðtækari samstöðu um aðferðina við stjórnarskrárbreytingar en gert væri með því að samþykkja frumvarpið óbreytt í öllum atriðum. Það hefur verið ljóst frá upphafi að ekki yrði sátt um þessa leið. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Róberti Marshall finnist ekki að það hefði verið ástæða til að reyna að ná breiðari samstöðu á þingi um leiðina til þess að fara í stjórnarskrárbreytingar. Um leið vil ég taka skýrt fram, eins og raunar kemur fram í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd, að við teljum fulla ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána Um það er í sjálfu sér ekki ágreiningur. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvernig það er gert og hvaða ákvæði á að skoða en það er hins vegar ljóst að stjórnarskrána þarf að mörgu leyti að endurskoða.

En hefði ekki verið nær að leita sátta í staðinn fyrir að fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur til í ósætti við stjórnarandstöðuna?