138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt að við áttum um margt ágætar samræður í allsherjarnefnd um þetta mikilvæga mál. Það er líka rétt að það var ljóst að ekki næðist full samstaða um þá leið sem ríkisstjórnin leggur til í málinu. Vandinn að mínu mati hefur verið sá að núverandi ríkisstjórn hefur frá upphafi verið geirnegld við þá afstöðu að það yrði að stofna til einhvers fyrirbæris sem kallað væri stjórnlagaþing, nánast óháð því í hvaða formi það væri, bara að það héti stjórnlagaþing. Ég hef metið það svo, eiginlega frá upphafi, að þetta væri fyrst og fremst viðleitni af hálfu hæstv. ríkisstjórnar til að láta líta út fyrir að hún væri að gera eitthvað, frekar en að það stafaði af raunverulegum áhuga á stjórnlagaþingi.

Ég virði það ef hv. þm. Róbert Marshall hefur aðra skoðun en þetta hefur verið mín upplifun frá því að núverandi ríkisstjórn tók fyrst (Forseti hringir.) við völdum, reyndar í lítið breyttri mynd, 1. febrúar 2009.