138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:31]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka formanni allsherjarnefndar fyrir framsögu hans fyrir hönd meiri hluta allsherjarnefndar. Ég hef litið svo á að eitt af grunnhlutverkum þingmanna sé að fjalla um stjórnarskrána og því hef ég talið, líkt og ég held að hv. þm. Róbert Marshall hafi sjálfur sagt, að þingið eigi helst ekki að vísa slíku verkefni frá sér.

Nú vitum við öll hér inni að stjórnlagaþing er gamalt áhugamál, gamall draumur hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur látið sig dreyma um þetta í 15 ár og hygg ég að hún láti nú reyna á undir lokin að þetta komist í gegn. Ég vil hins vegar vekja athygli hv. formanns allsherjarnefndar á þeirri staðreynd að ekki einn einasti ráðherra ríkisstjórnarinnar er í salnum til að taka þátt í þessari umræðu, jafnmikilvægt mál og þetta er, og það eru bara tveir þingmenn stjórnarliða staddir í þingsal við umræðuna. Ég spyr hv. formann: Finnst honum ekki óþægilegt að hafa framsögu í aðalumræðu um jafnmikilvægt mál og stjórnlagaþing er og að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki láta svo lítið að láta sjá sig í salnum?