138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir framsöguræðu hans og einnig þeim þingmönnum sem hafa komið upp og veitt andsvör, en það er mjög mikill boðskapur og fróðleikur sem þeir þingmenn hafa komið með inn í umræðuna.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Róbert Marshall, formann allsherjarnefndar, þar sem þjóðin stendur nú á miklum tímamótum og fyrir dyrum stendur í kjölfar bankahrunsins mikill niðurskurður um ókomin ár: Finnst þingmanninum ekki fullmikið í lagt eins og kemur fram í frumvarpinu að stjórnlagaþing standi yfir í 11 mánuði og það séu tæpar 500 milljónir sem það á að kosta? Væri ekki réttara hjá Alþingi eins og málin standa núna að verja þeim fjármunum hreinlega til að endurreisa þá stofnun sem við störfum í, til að bæta löggjafarvaldið, styrkja nefndasviðið, heldur en að fara með þá beint inn í stjórnlagaþing, sem ég minni þingmenn á að er eingöngu ráðgefandi? Það var ekki það sem fólk kallaði eftir í búsáhaldabyltingunni, að hér yrði komið á fót ráðgefandi stjórnlagaþingi. Það hefur margoft komið fram í umræðum. Við framsóknarmenn vildum, úr því að hugmyndin var að framselja stjórnskipunarvaldið, að þetta yrði bindandi stjórnlagaþing sem kæmi hér inn og stjórnvöld gætu ekki verið að krukka í það hvað kæmi út úr þeirri stjórnarskrá sem stjórnlagaþing með bindandi ákvörðun hefði og þá færi það í gegnum þingið, boðað yrði til þingkosninga og svo mundi Alþingi samþykkja það aftur eins og stjórnskipunarvaldið er.

Nú er tími minn búinn. Þetta var spurningin í fyrri umferð en svo er ég með aðra spurningu sem ég verð að koma að í seinna andsvari.