138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

fjárhagsstaða heimilanna.

[15:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Herra forseti. Þegar innstæður þeirra landsmanna sem þær áttu voru tryggðar að fullu á kostnað ríkisins en þeim landsmönnum sem skulduðu fé t.d. vegna íbúðakaupa var gert að greiða af stökkbreyttum höfuðstólum lána rofnaði samfélagssáttmálinn. Þá breyttist Ísland og varð að óbærilegu þjóðfélagi. Í grein í Fréttablaðinu í morgun reifaði hæstv. ráðherra, Árni Páll Árnason, ýmsar hugmyndir til sparnaðar fyrir ríkisvaldið, t.d. um að frysta laun ríkisstarfsmanna sem hafa þó margir mátt þola launalækkanir og skerðingu starfshlutfalls nú þegar. Við erum öll á sama báti. Ef við eigum að ná okkur upp úr þessari kreppu, þessu hruni, er nauðsynlegt að við séum samtaka.

Það er því rétt sem hæstv. ráðherra bendir á, einhvers konar þjóðarsátt er nauðsynleg, en hún verður ekki fyrr en lán heimilanna verða leiðrétt, bæði verðtryggð lán og gengistryggð lán. Án þess verður engin sátt í samfélaginu, ekki nú, ekki á næstu árum og kannski ekki á meðan við lifum.

Ríkisstjórninni er tíðrætt um gífurlegan fjölda sértækra úrræða sem eru í boði fyrir lánþega. Málið er bara að þau virka ekki. Það er vissulega orðið huggulegra að verða gjaldþrota og fólki með háar tekjur er bjargað en venjulegu fólki með börn, svokallaðri millistétt, virðist fátt standa annað til boða en lenging á hengingaról. Lágtekjufólk, öryrkjar og atvinnulausir ná ekki endum saman og raðir við matarúthlutanir lengjast þótt minna sé í pokunum en áður.

Herra forseti. Í gær sagði vefritið Pressan frá manni sem fór í sértæka skuldaaðlögun og líkti því við fjárhagslegt sjálfsmorð. Fjögurra manna fjölskyldu er gert að lifa á lágmarksframfærslu næstu árin án þess að hafa fengið mikla úrlausn sinna mála. Þess má geta að sú framfærsla er mun lægri en t.d. hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Sértæk skuldaaðlögun er hönnuð af fjármálafyrirtækjum fyrir fjármálafyrirtæki en ekki fólkið sem þarf á aðstoð að halda. Nú þurfum við að hugsa út fyrir rammann og beita óhefðbundnum aðferðum.

Það er skoðun mín að almenn leiðrétting á skuldum heimilanna sé eina leiðin til að Ísland eigi von svo fólk sjái tilgang í að búa hér. Hver vill búa í óréttlátu landi? Vill hæstv. forsætisráðherra búa í svona landi?