138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var kannski ástæða til að fá að sjá þetta skuldabréf. Í umræðu í nefndinni kom fram að a.m.k. sú sem hér stendur hefði enn á ný verið tilbúin til að stíga inn í hið margumtalaða leyniherbergi, sem við erum með hérna þar sem geymdar eru ýmsar leynimöppur, til að lesa í gegnum þetta skuldabréf. Það hefði ekki einu sinni þurft að þýða það, heldur bara fá upplýsingar um hvað þetta nákvæmlega þýðir.

Að við skulum þurfa að lesa um það í Morgunblaðinu að veðþekjan sé allt að 130% á þessu skuldabréfi, þ.e. um helmingur eigin fjár bankans, er nokkuð sem ég hefði talið mjög eðlilegt að við ræddum milli 2. og 3. umr. þannig að við gerðum okkur grein fyrir hvað um væri að ræða.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti á ekki væri verið að veita hérna leyfi til að veðsetja eignir bankans, það liggur þegar fyrir, heldur hef ég áhyggjur af þessum skilaboðum frá Alþingi um að við séum að auðvelda þessa veðsetningu, að þetta sé nokkuð sem við teljum allt í lagi.

Við tókum ákvörðun á þingi, að vísu forverar okkar, um að setja innstæður í forgang í þrotabú, þá til þess að tryggja ábyrgðirnar, þannig að ég spyr hv. þingmann hvort skilaboðin frá Alþingi séu ekki þau að það eigi bara að afnema forgangsröðina og hvort við eigum ekki bara að drífa okkur í það og þar með líka að afnema þessa svokölluðu ríkisábyrgð á innstæðum.