138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Skilaboðin með samþykkt þessa frumvarps eru ekki þau að verið sé að afnema forgang Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vegna þess að viðskiptabankarnir hafa nú þegar heimild til að veðsetja eignir sínar. Eins og ég kom inn á í ræðu minni er bara verið að auðvelda þeim fjármálafyrirtækjum sem falla undir neyðarlögin veðsetninguna, auðvelda þeim að færa eignir til, taka eignir út úr veðsafninu og setja inn nýjar.

Það er þó rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir bendir á, viðskiptanefnd var ekki kunnugt um þessa miklu veðsetningu á bak við skuldabréfið og henni hafði verið boðið að fá að sjá samninginn í trúnaði, þó á fundi viðskiptanefndar. Ástæðan fyrir því að samningsaðilar vildu halda trúnaði á þessum samningi er sú að í honum eru margar viðkvæmar upplýsingar um þau viðskipti sem felast í þessu skuldabréfi milli nýja og gamla bankans.