138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[16:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi í tengslum við uppgjör vegna ráðstöfunar Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði og tvö nefndarálit, frá meiri og minni hluta hv. viðskiptanefndar. Ég skynja það þannig, frú forseti, að þetta sé afskaplega veigamikið mál þótt það hafi látið lítið yfir sér í byrjun. Í fyrsta lagi er alls ekkert auðskilið hvað felst í því að fjármálafyrirtæki sé heimilt að veita veð í eignum sínum, þar á meðal kröfuréttindum. Ég hélt að þetta væri til staðar en það virðist ekki vera.

Fyrst af öllu langar mig til að gagnrýna hæstv. forseta kurteislega fyrir hringl með dagskrána. Ég átti von á að hér yrði stjórnlagaþing rætt fram eftir degi og átti ekki von á því að þurfa að ræða þetta mál. Þetta er dálítið flókið mál og mig skortir kannski greind til að skilja það, en maður þarf að setja sig inn í mjög flókin mál. Satt best að segja er ég ekki enn búinn að átta mig á því, ég hef fylgst með umræðunni hérna, um hvað málið raunverulega snýst. Þótt við séum að ræða tvö nefndarálit úr hv. viðskiptanefnd væri ekki verra að hafa ráðherrann til staðar til að útskýra fyrir manni hvaða sýn hann hefur með þessu frumvarpi og hvaða markmið. Er það virkilega rétt sem hér hefur komið fram, að frumvarpið sé flutt sem viðhengi við samning sem gerður var 15. desember sl. á milli kröfuhafa gamla Landsbankans og nýja Landsbankans, NBI. Þar var gerður samningur og þar voru allar eignir og skuldir NBI núllaðar út með skuldabréfi sem hann gaf út og skuldar þá gamla bankanum. Það skuldabréf átti reyndar að vera bara, hélt ég, eins og hvert annað skuldabréf sem bankinn gæfi út. En nei, samkvæmt þessu frumvarpi er meiningin að setja á bak við þetta skuldabréf stóran hluta af eignum Landsbankans, þ.e. kröfur hans á íslensk heimili, fyrirtæki og einstaklinga, þær kröfur sem hann á vegna útlána gamla Landsbankans sem hann yfirtók, til einstaklinga, bílalán og íbúðalán og annað slíkt, þau skuldabréf eru sem sagt sett að veði fyrir gamla bankann, þ.e. kröfuhafana.

Nú vill svo til að Icesave og innlánstryggingarkerfið hafa samkvæmt neyðarlögunum forgang inn í gamla bankann og þar af leiðandi eru kröfuhafar þar eiginlega bara þrír, þ.e. breska og hollenska ríkið sem greiddu út stóran hluta af Icesave, og svo innlánstryggingarsjóður á Íslandi sem hefur greitt eða mun standa klár á öðrum innlánum sem voru í gamla bankanum og ekki flutt yfir.

Það sem maður hlýtur að gera athugasemd við, frú forseti, er að 15. desember er gerður samningur milli nýja bankans og gamla og að inni í þeim samningi er ákvæði um að ríkisvaldið eigi að sjá til þess að sett verði lög. Það er sem sagt búið að færa löggjafarvaldið yfir til þessara tveggja aðila sem sömdu þarna. Maður hlýtur að gera athugasemd við þetta. Það hefði verið eðlilegra að fá lagasetningu á Alþingi strax og segja hreint út um hvað málið snerist, ekki vera með þennan feluleik. Þessi lagasetning varð að koma fram fyrr en seinna og kannski hafa menn treyst því að enginn sæi í gegnum þetta eða skildi og treyst á að það færi bara í gegn, en það er greinilegt að gerður var samningur 15. desember sl. sem krafðist lagasetningar. Þetta er það fyrsta sem maður gerir athugasemd við, fyrir utan það að ráðherrann er ekki viðstaddur.

Svo vantar alla sýn. Ég verð að segja að þegar menn gera svona hluti þurfa þeir að hafa sýn. Hvernig lítur bankakerfið út á Íslandi og atvinnulífið allt þar með eftir fimm ár, 10 ár og 20? Bankakerfið er eiginlega miðpunktur atvinnulífsins og ég hef hvergi séð þá sýn.

Ég á því miður ekki sæti í hv. viðskiptanefnd og þar af leiðandi kem ég dálítið utan frá inn í þetta mál og hef ekki fengið alla þá fræðslu sem þar hefur átt sér stað, því miður. Í nefndinni er verið að ræða innlánstryggingarkerfi og ég verð að segja, frú forseti, að það er líka nokkuð sem við þurfum að gæta okkar mjög vel á. Mér finnst dálítið skorta á að leitað sé eftir því hjá þingmönnum almennt hvaða góðu hugmyndir hver og einn hefur. Við sáum hvað gerðist með Icesave. Einhverjir kappar gátu stofnað innlánstryggingarkerfi um alla Evrópu og það er ekkert sem hindrar það í dag að þessir þrír íslensku bankar með innlánstryggingarkerfi, þess vegna á Ítalíu, Grikklandi eða hvar sem er, bjóði mjög háa vexti — jafnvel í Hollandi skilst mér að vextirnir hafi farið upp fyrir útlánsvexti — og fái inn geysimikil innlán með þeim hætti að bjóða bara nógu háa vexti. Hvað gerist þá? Þá hafa þeir til ráðstöfunar mjög mikinn gjaldeyri. Nú hefur ekki einu sinni komið fram hverjir eru eigendur tveggja bankanna á Íslandi og þeir gætu sem sagt leikið þennan leik. Svo á að vera ríkisábyrgð á innlánunum samkvæmt nýrri tilskipun Evrópusambandsins sem mér skildist reyndar að Evrópska efnahagssvæðið væri ekki búið að yfirtaka. (SKK: … búið að taka það upp … í EES-samninginn.) Er búið að taka það upp í EES-samninginn? Nei, það er ekki búið að því, nei. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir góðar upplýsingar utan úr sal vegna þess að ég sit ekki í nefndinni og get ekki spurt gesti að þessu.

Það sem við erum að glíma við hérna er afleiðing af neyðarlögunum. Þau settu öll innlán í forgang í þrotabúum bankanna. Þau gilda líka um nýju bankana þannig að innlánseigendur á Íslandi geta treyst því að þeir eru í forgangi í kröfum nema, frú forseti, í Landsbankanum þar sem þetta frumvarp hér á að veita bankanum heimild til að veðsetja kröfur í nýja bankanum, þ.e. eignirnar sem hann á, skuldir heimila og fyrirtækja við Landsbankann. Það er hægt að veðsetja það og verður væntanlega gert í samræmi við þetta samkomulag þannig að innlán eru ekki lengur með fyrsta forgang í eignir Landsbankans nýja, NBI.

Þetta finnst mér þurfa að ræða miklu meira. Ég verð að segja, sem við þurfum að taka dálítið alvarlega, að við mig hafa haft samband þrír aðilar sem eiga innstæður í bönkum og hafa af þessu töluvert miklar áhyggjur. Ég ætla að vona að allt gangi betur. Það eru öll merki þess, gengið er að styrkjast og það er búið að leysa vandamál með tvo banka á nokkuð góðan hátt. Ég vona að það reyni ekki neitt á innlánstryggingarkerfið og við verðum bara að vona það. En traustið er númer eitt, tvö og þrjú, það er mjög mikilvægt. Þess vegna ætti hæstv. viðskiptaráðherra að vera hérna til að byggja upp traustið á innlánstryggingarkerfið og á innstæður yfirleitt.

Hér er sem sagt verið að veita einu skuldabréfi væntanlega, ég vona að þau verði ekki fleiri, forgang í eigur nýja bankans sem eins og ég sagði áðan eru kröfur á íslensk heimili og fyrirtæki þar sem hann hefur áður lánað þeim og þau skulda honum. Þótt það komi kannski þessu máli ekki við kemur það í rauninni inn á þær lausnir sem menn eru að bjóða sérstaklega heimilum núna með ýmiss konar lagasetningu, að létta byrðum af heimilunum.

Eins og ég sagði snýst allt þetta um framtíðarsýnina. Ég vil sjá hana mjög skýra. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn ekki vera með skýra framtíðarsýn. Ef hún hefði haft skýra framtíðarsýn hefði hún getað komið hérna 15. desember og sagt: Við ætlum að skrifa undir samkomulag á milli nýja og gamla Landsbankans og þar í er skuldabréf sem á að vera með veði í eignunum. Bara koma hreint til verks, segja: Svona er þetta. Þá hefðum við getað rætt hvort hægt væri að leysa það svona eða einhvern veginn öðruvísi, hvort innstæðurnar ættu að hafa forgang umfram þetta bréf, vera jafnsettar eða hvernig það nú er. Nei, það er skrifað undir samkomulag í leyni og síðan er Alþingi stillt upp við vegg með klárað dæmi og á að skrifa upp á. Mér finnst þetta ekki nógu gott, frú forseti.

Varðandi framtíðarsýn bankakerfisins sé ég að það verður að fara að setja upp innlánstryggingarkerfi sem byrjar með nokkuð góða stöðu. Bankarnir þurfa að borga dálítið vel inn í það, töluvert meira en gert hefur verið. Ég held að það sé reyndar stefnan um alla Evrópu. Það verður örugglega gert í Bretlandi og víðar þar sem bankakerfið hefur þurft mjög safaríkan stuðning frá ríkinu, það verður látið borga til baka með auknum gjöldum á vaxtamuninum. Vaxtamunurinn mun væntanlega vaxa eða hagnaður bankanna minnka.

Þetta sæi ég sem framtíðarsýn, að innlánstryggingarsjóðurinn yrði byggður upp nokkuð hratt og síðan verði menn mjög varkárir í því að veita tryggingar á innstæður. Innstæðutryggingar eiga í rauninni ekki að vera til staðar nema upp að einhverri ákveðinni upphæð. Of mikil ríkisábyrgð á innstæður leiðir til agaleysis og ábyrgðarleysis hjá þeim sem veita útlán. Það hefur sýnt sig og það þarf að gæta mjög vel að því. Þess vegna legg ég til að innstæðutryggingarkerfið verði byggt upp nokkuð hratt, góð trygging sem ræður við áföll sem bankakerfið gæti orðið fyrir þannig að innstæðueigendur telji sig nokkuð vel trygga og horfið verði frá því sem lýst hefur verið yfir úr ræðustól, að hæstv. ráðherrar taki á sig ábyrgð eða segi að innstæður séu 100% tryggðar. Ég bendi á að það eru bara orð ráðherra en ekki lög.

Traustið á bankakerfið á að byggja upp á annan hátt þannig að menn treysti því að bankarnir séu vel reknir, það geti ekki komið upp sama staða og gerðist hér í hruninu, að stórir eigendur bankanna holuðu þá að innan sem skaðaði gífurlega mikið aðra hluthafa, minni hluthafa, og skaðaði líka álit bankanna þannig að það er mjög brothætt í dag og hefði skaðað innstæðutryggingar ef menn hefðu ekki leyst málin með þeim hætti sem gert var með neyðarlögunum og með því að setja nýju bankana undir gömlu bankana sem er í sjálfu sér mjög góð lausn.