138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Þór Saari höfum um margt ólík sjónarmið varðandi málið sem er hér til umræðu. Ég get þó tekið undir mjög margt í ræðu hans, ekki síst lokaorðin. Þetta frumvarp er ekki til þess fallið að skapa sátt um þá aðferð sem við þurfum beita við breytingar á stjórnarskrá. Ég tel mjög æskilegt og raunar nauðsynlegt að hv. allsherjarnefnd fjalli um málið í því skyni að reyna að leita að víðtækari sátt, þó við gerum okkur grein fyrir því að enn eru um margt ólík sjónarmið uppi. Ég deili eindregið þeirri skoðun hv. þm. Þórs Saaris að frumvarpið megi ekki fara óbreytt í gegn.

Ég deili raunar líka ýmsum öðrum sjónarmiðum sem fram koma í máli hans varðandi atriði sem lúta að breytingum. Ég ætla nú ekki að taka að mér það hlutverk að vera málsvari meiri hluta allsherjarnefndar, enda er ég á minnihlutaálitinu. Ég hygg þó að sú breyting sem hv. þm. Þór Saari vísaði til og fjallar um það að forsætisnefnd Alþingis sé falið tiltekið hlutverk samkvæmt frumvarpinu, ég hygg að hún sé til bóta. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að þessi verkefni væru á hendi forsætisráðherra, þ.e. forsætisráðherra semdi frumvarpið og legði það fram þannig að forsætisráðherra ætti með einhverjum hætti að hafa yfirumsjón með starfi stjórnlagaþingsins. Ég tel að sú breyting sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur þarna til sé til bóta að því leyti að ég held að það sé skárra að meiri hluti forsætisnefndar taki við slíkum verkefnum en að þau séu á hendi forsætisráðherra eins.