138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi bæta við öðru atriði sem ræða hv. þm. Þórs Saari gaf tilefni til að velta upp. Það lýtur að því að hv. þingmaður og flokkssystur hans í Hreyfingunni hér á þingi hafa margoft lýst því yfir að þau telji mikilvægt að ná fram ýmsum breytingum í þá átt að auka lýðræði og hafa bæði lagt fram tillögur og talað fyrir því hér. Sumar af þeim breytingum sem þau hafa talað fyrir snúa að breytingum á stjórnarskránni sem slíkri, kalla einfaldlega á breytingu á stjórnarskrá. Ég vildi inna hv. þm. Þór Saari eftir því hvort hann telji nauðsynlegt að fara þá leið, að kjósa til sérstaks stjórnlagaþings til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá áður en til nokkurrar stjórnarskrárbreytingar kemur, eða hvort hann teldi hugsanlegt að taka þetta í skrefum. Hugsanlega væru tekin skref sem fælu í sér að við þingmenn mundum, innan tiltölulega skamms tíma, taka ákvörðun um stjórnarskrárbreytingu, sem fæli t.d. í sér einföldun á því ferli að breyta stjórnarskrá. Það er hugmynd sem var töluvert rædd hér síðasta vetur, að það mundi einfalda ferlið við það að breyta stjórnarskránni og gera það greiðara, m.a. með því að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslu og fleira þess háttar. Hugsanlega gefa sér lengri tíma til að fara yfir efnislega þætti stjórnarskrárinnar lið fyrir lið með einhverjum aðferðum sem reynt yrði að ná víðtækari samstöðu um en næst með þessu frumvarpi.