138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka það fram að auðvitað var stjórnarskrárnefndin skipuð fyrir kosningarnar 2007 en hún átti að halda áfram eftir að kosningarnar 2007 voru afstaðnar.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram á vorþinginu síðasta, á árinu 2009, tillögur um breytingar á stjórnarskránni til þess einmitt að gera það sem hv. þingmaður nefnir, að undirstrika það að sjávarútvegsauðlindin væri sameiginleg eign þjóðarinnar eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða. Við höfum tekist á um orðalag þessarar greinar en Sjálfstæðisflokkurinn tefldi hreinlega fram sinni eigin tillögu um þetta mál sem náði ekki fram að ganga hérna á þinginu þannig að það stenst auðvitað enga skoðun að við séum á móti því að slíkt ákvæði sé leitt í stjórnarskrána.

Við lögðum líka fram tillögu um breytingar á 79. gr. sem hefði tekið þingið út úr þeirri úlfakreppu sem við erum nú í, að geta ekki breytt stjórnarskránni án þess (Forseti hringir.) að boðað verði til kosninga í kjölfarið. Það náðist engin sátt um það. Við buðum (Forseti hringir.) það hér fyrir ári og það náði ekki fram að ganga.