138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það sé tímabært að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og sérstaklega þá kafla sem ég vék að í ræðu minni sem t.d. snúa að hlutverki forseta Íslands. Ég er hlynntur þingræðinu, ég tel að það verði ekki vikið frá þrískiptingu ríkisvaldsins. Ég er að sjálfsögðu hlynntur hlutlausum dómstólum. Ég tel að ýmis ákvæði sem snúa að samskiptum ráðherra og forsetans og ábyrgðinni þeirra á milli þarfnist endurskoðunar. Ég tel að við þurfum að velta því fyrir okkur að taka ný ákvæði inn í stjórnarskrána eins og til að mynda það sem snertir auðlindir landsins, við þurfum auðvitað að ræða málin og komast að niðurstöðu um slíka hluti. Í stjórnarskrárnefndinni var líka ágætissamstaða um það að í stjórnarskrána skorti ákvæði sem varða umhverfismál.

Ég er líka þeirrar skoðunar og svara því þess vegna játandi að flokkarnir geti komið sér saman um þetta. Ég tel að það sé vel á því byggjandi að efna til þverpólitísks samráðs á þinginu og að við ættum að kalla til sérfræðinga okkur til ráðgjafar um það hvernig við eigum helst að standa að þessu. Ég tel að það sé of mikið gert úr því sem kallað hefur verið grundvallarágreiningur, til að mynda um sameign þjóðarinnar á auðlindum og hlutverk forsetans. Reyndar tel ég að nýskeðir atburðir á árinu muni á endanum leiða til þess að það verði miklu minni ágreiningur um þörfina til að fella niður 26. gr. en var í störfum stjórnarskrárnefndarinnar.