138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í andsvar vegna þess að mér heyrðist það vera skilningur hv. þingmanns á þeim breytingum sem verið að gera á 27. gr. frumvarpsins að það sé afstaða meiri hluta nefndarinnar að frumvarp til stjórnskipunarlaga skuli aðeins sent Alþingi til meðferðar ef full samstaða næst um það á stjórnlagaþingi. Ég legg áherslu á að það stangast á við ákvæði frumvarpsins að öðru leyti þar sem gert er ráð fyrir að stjórnlagaþing greiði atkvæði um einstakar tillögur og síðan um frumvarpið í heild og að það teljist samþykkt og sent Alþingi til meðferðar ef meiri hluti fulltrúa á stjórnlagaþingi greiði því atkvæði enda megi telja það fyrir fram óraunhæft að full samstaða geti náðst um einstakar tillögur á stjórnlagaþingi.

Ég sé hins vegar við lesturinn á nefndarálitinu að þetta má misskilja og velti fyrir mér hvort hugsanlega komi til greina að draga þessar breytingartillögur til baka í ljósi þessa því að 2. mgr. 27. gr. felur í raun einungis í sér að náist ekki slíkt meirihlutasamþykki á stjórnlagaþingi skuli stjórnlagaþing engu að síður skila formlega af sér til Alþingis. Ég vil ítreka hér að þetta er skilningur meiri hluta nefndarinnar til að það sé alveg á hreinu.

Um hitt vil ég segja að úr allsherjarnefnd komu fjögur mismunandi álit, fjórar mismunandi skoðanir, á því hvernig skuli fram haldið með málið en megininntak málsins sjálfs, þ.e. breytingar á stjórnarskránni, er ekki umdeilt. Það eru allir sammála um að ráðist skuli í þær og þá er það hlutverk ábyrgs stjórnvalds, það er hlutverk ábyrgs meiri hluta að mínu mati, að ef einsýnt er að ekki náist samstaða en samstaða er um meginmarkmiðið þurfi að keyra málið áfram, draga það út úr kyrrstöðu og hreyfa við því þannig að við getum þokað málinu.