138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Ég vil gera að umtalsefni það sem hann segir um kostnaðinn vegna þess að hann hefur verið áætlaður á þessu bili, um og í kringum 500 milljónir, og ég held að það sé varlega áætlað. Hvað sem því líður held ég að það sé erfitt að átta okkur á því hver kostnaðurinn er af því að traust vantar í samfélagið. Ég held að það sé erfitt fyrir okkur að komast að einhverri niðurstöðu um hvað það kostar okkur að hafa löggjöf og hafa stjórnarskrá sem er ekki í takti við samfélagið sem við búum í. Ég sagði í ræðu minni í dag að það væri hugsanlegt að öðruvísi stjórnarskrá hefði ekki bjargað okkur frá bankahruni og gjaldmiðilshruni en hins vegar er alveg ljóst að það var stjórnskipanin sem brást.

Ég vil líka gera að umtalsefni það sem virðist vera nokkurs konar blæti hjá hv. þingmanni, að vilja sífellt hafa forsætisráðherra í salnum þegar hann flytur ræður sínar. Þetta er meðal þess sem á að taka til skoðunar á stjórnlagaþinginu, það eru samskipti löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Að mínu viti ættu ráðherrar í ríkisstjórninni ekkert erindi á löggjafarsamkomuna nema þá sérstaklega til að gefa henni skýrslu um störf sín. Þannig væru að mínu mati eðlileg samskipti á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, ráðherrar væru ekki sitjandi þingmenn í þessum sal.

Ég mundi vilja spyrja hv. þingmann þeirrar spurningar: Hvers vegna er nauðsynlegt að fulltrúi framkvæmdarvaldsins sé viðstaddur þegar hann flytur ræður sínar?