138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal að þessu leyti. Ég held að það sé nauðsynlegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar. Ég fór svona á hundavaði yfir það áðan að ég teldi það í rauninni forsendu þess að menn afgreiddu þetta frumvarp um stjórnlagaþing, að við breyttum 79. gr. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að mér löglærðari og lögspakari menn kunna að gera ágreining um það. En ég held að það sé alveg rétt að 79. gr. hamli og komi í veg fyrir að það sé hægt að breyta stjórnarskránni með tiltölulega þægilegum hætti. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um að það eigi að vera auðvelt að breyta stjórnarskránni. Ég held að það eigi að vera frekar erfitt vegna þess að hér er um grunnlagarit okkar að ræða, en ég held að það sé hins vegar alveg kórrétt að 79. gr. geri það líka að verkum að þegar þing er rofið og boðað er til alþingiskosninga þá sé almenningur ekki að kjósa um breytingar á stjórnarskránni. Það er blekking að halda því fram að þegar menn gangi að kjörborði í alþingiskosningum eftir stjórnarskrárbreytingu séu þeir að kjósa um breytta stjórnarskrá. Þeir eru að kjósa stjórnmálaflokka sem þeim líkar í það og það skiptið.