138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Já, það er einmitt út af því að ég þekki ekki þjóðina sem mig langar til að eiga samtal við eins marga og mögulegt er. Það var gerð ágætistilraun með þjóðfundinum þar sem dregið var út í raun og veru það sem flestir voru sammála um. Mig minnir að það orð sem oftast kom fyrir þar hafi verið heiðarleiki. Þar kom mjög skýrt fram að fólk vildi búa í samfélagi þar sem ríkti jafnrétti og ýmislegt mjög göfugt. Ég er sammála því að finna þarf lausn á því hvernig við veljum inn á þingið. Við lögðum til á sínum tíma að slembiúrtak yrði tekið úr þjóðskrá. Mér þætti það vera alveg jafngóð leið og jafnvel væri hægt að hafa tvær leiðir saman, þessa og þá að sérvelja einstaklinga eins og Njörð P. Njarðvík og Vigdísi Finnbogadóttur eða aðra sem þjóðin treystir. Ég held að við eigum einmitt eftir að fara miklu betur í þá umræðu en við eigum að byrja á því að heyra fyrst hvað það er sem fólk vill. Við getum gert það áður en við setjum saman stjórnlagaþing, þar sem annað hvort sitja 25 eða 31, sem fer inn í þetta hefðbundna nefndaferli sem ég held að sé eitthvert það aldauðasta ferli sem ég hef nokkurn tíma unnið í. Það kom mér eiginlega á óvart hvað það er leiðinlegt og hefur alla vega gefið mér mjög litla innsýn inn í þau mál sem verið er að fjalla um og það er lítil samræða þar, mjög lítil.

Ég held því að við ættum að sýna smádjörfung og prófa nýjar leiðir í vinnu á þessu stjórnlagaþingsmáli og opna það miklu meira, annaðhvort alla leið með stóru slembiúrtaki og þjóðfundum eða byrja á að — og síðan getum við ritstýrt því og unnið einhverja heildræna niðurstöðu út úr öllu sem kemur frá almenningi.