138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir fína ræðu. Hv. þingmaður sagði í ræðunni að hún hefði skoðað kosti og galla þeirra hugmynda um hvernig við ættum að framkvæma það að endurskoða stjórnarskrána. Hv. þingmaður sagði líka í ræðu sinni að hún hefði komist að niðurstöðu um að hún teldi þetta réttu leiðina til þess. Ég vil að það komi skýrt fram að ég ber fulla virðingu fyrir skoðun hennar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það að ef sú leið væri farin, sem er lögð til af 1. minni hluta, að skipa níu manna nefnd sem gæti farið yfir og skilað niðurstöðu til þingsins eins og stjórnlagaþinginu er ætlað að gera, hvað væri því til fyrirstöðu að sú níu manna nefnd gæti náð að endurspegla vilja þjóðarinnar. Það má nýta sér t.d. íbúaþing, þjóðfundi eða svoleiðis. Ég hræðist það nefnilega dálítið að ef við kjósum til þingsins 25–31 einstakling og þeir byrja raunverulega með autt blað þá sé hugsanlega ekki til staðar nægileg þekking á því sem hægt er að gera. Mín skoðun er sú að þarna inni þurfi að vera einstaklingar sem þekki til þessara hluta og hvernig eigi að framkvæma þá.

Í öðru lagi vil ég spyrja hvort þingmaðurinn sjái hugsanlega einhverja leið að því — og ég tek heils hugar undir áhyggjur hennar um að við séum að skipa þetta pólitískt — ef til vill mætti skipa einhverja aðra inn í þetta eins og t.d. stúdentasamtökin eða háskólana eða eitthvað svoleiðis svo við getum leyst þetta frá pólitíkinni sem ég tek heils hugar undir að væri heppilegt.