138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að besta leiðin til að velja fólk til að semja nýja stjórnarskrá sé að boða til kosninga og kjósa 25–31. Ég óttast ekki, og fannst ég vera að segja það áðan, að hæfileikafólk sem áhuga hefur á þessum málefnum hafi ekki vit á að bjóða sig fram til þessara starfa. Auk þess er ljóst samkvæmt frumvarpinu að stjórnlagaþing getur kallað sérfræðinga til ráðgjafar og þar fram eftir götunum. Ég held því að við þurfum ekkert að óttast það að þar sitji einhverjir blábjánar frekar en að hér sitji blábjánar.

Alþingi Íslendinga hefur ekki tekist að breyta stjórnarskránni í öll þessi ár. Það eru mjög róttækar hugmyndir meðal fólks um hvernig eigi að breyta stjórnarskránni og þær þurfa allar að koma fram. Þær koma ábyggilega ekki allar fram ef við kjósum það sem kallað er níu valinkunna Íslendinga. Við þurfum að hafa á stjórnlagaþingi fólk sem hugsar mjög breitt og mjög vítt og hefur kannski, ef ég má sletta hæstv. forseti, „unconventional“ hugmyndir, þó ekki nema til að vekja alla hina upp því að þetta er mikið verkefni sem þarf að vinna og við megum ekki sigla áfram í sama farinu.