138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt það sem ég vildi fá fram. Það er nefnilega þannig að stjórnarskrá á að vinnast í sæmilegri sátt. Það á ekki að keyra hlutina fram eins og mér sýnist á umræðunni að hafi verið gert. Það á að vera sæmileg sátt um hlutina. Menn eiga að komast niður á einhver ákveðin grundvallarréttindi og grundvallaratriði sem þeir vilja hafa í stjórnarskránni og vera sammála um það.

Það sem ég óttast er að þegar á að fara að kjósa þetta stjórnlagaþing muni menn sýna því mikinn áhuga að ná þar einhverjum ítökum vegna þess að það er verið að móta grunnstoðir þjóðfélagsins og þar með allar áherslur, t.d. í umhverfismálum, í sameignar- og séreignarmálum, í auðlindamálum o.s.frv. Ég hugsa því að það verði töluverður áhugi á að ná ákveðnum áhrifum á þessu stjórnlagaþingi.