138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir bæði efnismikla og öfgalausa ræðu í þessu málefni. Hlátur í þingsal Ég verð þó að segja að ég á í nokkrum vandræðum með að átta mig á afstöðu Framsóknarflokksins í þessu máli. Mér þótti ræða hv. þingmanns góð og afstaða hennar kom skýrt fram. Í höndunum er ég með í höndum nefndarálit frá 2. minni hluta allsherjarnefndar sem byrjar á orðunum: „Framsóknarflokkurinn stendur vörð um þær raunverulegu lýðræðisumbætur sem kallað er eftir í þjóðfélaginu“ og síðan er nefndarálitið meira og minna gegn því máli sem hér er til umfjöllunar.

Það er tvennt sem ég vil gera að umtalsefni úr nefndaráliti fulltrúa Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd í framhaldi af ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Það er í fyrsta lagi að hér er talað um það eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Að leggja til að stjórnlagaþing verði einungis ráðgefandi eru skilaboð um að stjórnvöld treysti ekki þeim sem kjörnir verða á stjórnlagaþingið sjálft til að gera tillögu um nýja stjórnarskrá.“

Tekur þingmaðurinn undir þetta úr nefndaráliti fulltrúa Framsóknarflokksins?

Hitt atriðið sem ég vil nefna er umfjöllunin um kynjakvótann sem þingmaðurinn kom inn á og mér finnst stangast algerlega á við það sem segir í nefndaráliti fulltrúa Framsóknarflokksins. Er þingmaðurinn sammála fulltrúa Framsóknarflokksins í hv. allsherjarnefnd um að það sé verið að stjórna lýðræðisumbótum með handafli með þessari aðferð sem kynnt er til sögunnar og segir hér einnig, með leyfi forseta:

„Þessi afskipti eru óásættanleg og geta leitt af sér að frambjóðandi hljóti sæti á stjórnlagaþinginu þrátt fyrir að hafa hlotið færri atkvæði en frambjóðandi af öðru kyni.“

Mér finnst mjög mikilvægt að fá fram hvort að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sé ósammála því sem kemur fram í áliti fulltrúa Framsóknarflokksins vegna þess að ef svo er þá er komin upp önnur staða í málinu en maður gat ráðið af nefndarálitunum sem komu fram.