138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég reyndi að færa skýr rök fyrir máli mínu og vísaði til samþykkta flokksþings Framsóknarflokksins. Ég vísaði til frumvarps sem Framsóknarflokkurinn lagði fram á fyrri stigum þessa máls og fór líka í gegnum stefnu okkar að hafa jafnmargar konur og karla í öllu starfi sem lýtur að samfélaginu og ég stend við það.

Hér var talað um ráðgefandi stjórnlagaþing. Maður treystir því ekki til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá. Það má vera að í nefndaráliti 2. minni hluta sé fjallað um það að ráðgefandi stjórnlagaþingið eigi ekki að klára málið og senda það svo til þjóðarinnar. Það gæti verið skýringin á þessu orðalagi, ég skal ekki segja. Sú sem hér stendur treystir allavega á að ráðgefandi stjórnlagaþing komi með skynsamlegar tillögur. Ég ætla að leyfa mér að trúa því fyrir fram að þeir sem nái kjöri, og ég ber þá von í brjósti að það verði gott fólk sem leggur sig fram í verkefnið, geti náð árangri og leggi það inn. Svo verðum við auðvitað að sýna þroska til að klára það. Ég vona að við berum gæfu til þess þegar þar að kemur. Ég stend með öllu því sem ég hef sagt. Ég hef fært rök fyrir máli mínu og mun þangað til annað kemur í ljós (Forseti hringir.) treysta á að þetta ráðgefandi stjórnlagaþing komi með góðar niðurstöður hingað inn.