138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átti kannski eftir að fara aðeins betur yfir seinni spurningu hv. þingmanns varðandi kynjakvótann. Eins og ég rakti í ræðu minni er verið að opna möguleika á því að ná jafnræði með kynjunum eins og hægt er. Ef annað kynið fer illa út úr kosningu á stjórnlagaþingið þá er hægt að bæta við það kyn og ná þannig jafnræði. Mér finnst þetta vera mjög snjöll leið og réttmæt og hún er algerlega í anda stefnu Framsóknarflokksins í jafnréttismálum. Við viljum að bæði kynin komi að málum og við höfum sjálf sýnt það í verki með því að setja kynjakvóta við röðun á lista okkar. Ég rakti það þannig að þetta er algerlega í anda þeirrar hugsunar sem við ástundum í Framsóknarflokknum, þ.e. að auðvitað eiga bæði kynin að koma að því að vinna á ráðgefandi stjórnlagaþingi, annað væri þokkalegt.