138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég tel að það sé mun líklegra að stjórnlagaþing nái niðurstöðu en Alþingi Íslendinga. Reynsla mína af veru í stjórnmálum segir mér það. Tökum dæmi; ég held að það muni fljótt nást samstaða á stjórnlagaþingi um að ráðherrar sitji ekki á Alþingi á sama tíma. Það er mál sem hefur verið flutt margoft í þinginu og ég held að stjórnlagaþing muni fljótt ná saman um að sjávarauðlindin eigi að vera sameign þjóðarinnar. Það hefur margoft verið rætt hér en ekkert hefur enn gerst. Reynslan segir mér að það eru talsvert miklar líkur á því að stjórnlagaþingið nái niðurstöðu hraðar en Alþingi. Þess vegna eru þessi mál rædd. Framsóknarflokkurinn var tilbúinn að ganga mjög langt, fara alla leið og taka valdið af Alþingi og setja það í hendur bindandi stjórnlagaþings og senda svo breytingar á stjórnarskránni til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarflokkurinn vildi ganga svo langt. Við vitum að þetta er mjög langt gengið. Við göngum aðeins skemmra núna en maður er svo sannarlega tilbúin í það af því að reynslan segir manni að það sé svo erfitt að breyta stjórnarskránni eins og málum er fyrir komið. Það er bara hægt með því að breyta stjórnarskrá rétt fyrir kosningar, fara í gegnum kosningar og breyta henni aftur. Svo stunda flokkar þau vinnubrögð að leggjast gegn breytingunum þannig að við náum ekki neinu í gegn nema einhverju minni háttar atriði.