138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði að ræða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hefði verið málefnaleg. Ég hlýddi á þessa ræðu sem var alveg dæmalaus að því leytinu að hún var uppfull af órökstuddum sleggjudómum og sögufölsun í ofanálag þannig að ég fann ekki neitt málefnalegt í þeim kafla ræðunnar sem ég hlustaði á.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að okkur sjálfstæðismönnum tókst með harðfylgi að stöðva þær dæmalausu hugmyndir um stjórnarskrárbreytingar sem hér voru á sveimi fyrir um ári. Þar var um að ræða hrákasmíð og við afstýrðum í raun og veru stórslysi. Ég held að allir sjái það núna sem horfa til baka að það hefði verið mjög háskalegt ef þær breytingar hefðu náð fram að ganga, enda kann það aldrei góðri lukku að stýra að reyna að gera breytingar á stjórnarskránni á einhvers konar pólitískum harðahlaupum síðustu dagana fyrir kosningar.

Það er líka rangt hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið þversum gegn öllum breytingum á stjórnarskrá Íslands. Þær breytingar sem hafa orðið á stjórnarskránni hafa verið gerðar undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Það er sömuleiðis rangt hjá hv. þingmanni að tala um það sem einhverja minni háttar breytingu þegar m.a. var gerð breyting á sjálfu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það getur varla talist minni háttar — eða er mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar talið minni háttar mál í Framsóknarflokknum?

Enn fremur hitt, Sjálfstæðisflokkurinn var alveg reiðubúinn til að leggjast í vinnu um að setja inn auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þingmanni að í dag séu menn að tala um að það eigi að vera sértækt ákvæði sem lýtur að fiskimiðunum. Það dettur engum í hug, ekki nokkrum einasta manni sem núna ræðir þessi mál. Meira að segja ríkisstjórn Íslands talar um þetta á miklu breiðari grundvelli þannig að ég held að hv. þingmaður ætti að byrja á því að átta sig á þeirri þróun sem hefur orðið í þessari umræðu. Það var ekki fyrir neinn þvergirðingshátt Sjálfstæðisflokksins að ekki tókst að ná saman um þetta mál á sínum tíma, tíminn rann einfaldlega frá okkur. Þetta er vandasamt mál, það tók tíma og menn voru ekki tilbúnir til þess á þeim tíma, sem betur fer, að kasta einhverju inn í þingið sem ekki var búið að ljúka (Forseti hringir.) nægilegri undirbúningsvinnu við. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið tilbúinn til að vinna af heilum hug að endurskoðun og breytingum á stjórnarskránni.