138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hugmyndir um sparnað í ríkisrekstri.

[10:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur ekki ætlast til að farið sé með tæmandi hætti yfir þetta gríðarstóra mál á tveimur mínútum. Ég bið hv. þingmann sömuleiðis að leggja mér ekki orð í munn. Ég var fyrst og fremst að tala um að ég teldi ekki tímabærar vangaveltur um það hvernig með launamál opinberra starfsmanna yrði farið á árunum 2012 og 2013. Og ég var að vísa meira í það að það sem við værum að ræða núna, það viðfangsefni sem við er að fást, væri það sem við okkur blasir varðandi undirbúning undir fjárlagagerð fyrir árið 2011. Það hef ég verið að ræða við þessi samtök og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sáttur við það. Er það ekki þannig sem við viljum vinna hlutina?

Ég geri mér enn vonir um, þó að það sé snúið, að ég nái að leggja fram skýrslu fyrir Alþingi um endurskoðun efnahagsáætlunarinnar, útlínurnar í því, með svipuðum hætti og við gerðum í fyrravor. Hún verður að vísu væntanlega ekki jafnítarleg enda er fyrst og fremst um uppfærslu á áætlun að ræða, kortlagningu á því hvar við stöndum miðað við áformin sem við settum okkur fyrir ári og þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar fjárlögum yfirstandandi árs. Þá verður þetta ferli opnara og kynnt með allt öðrum hætti en venjan var varðandi fjárlagagerð eins og við reyndar hófum í fyrra og ég geri ráð fyrir því og vona að hv. þingmenn séu sáttir við það.