138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

staða sparifjáreigenda.

[10:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússyni, til hamingju með þann áfanga að ná gjaldmiðilssamningi við Kínverja sem skrifað var undir í morgun, það er mjög jákvætt. En það er annað sem ég vildi spyrja hann að og það er spurningin um stöðu sparifjáreigenda á Íslandi. Það er hópur manna sem ekki nýtur mjög mikillar velvildar á Alþingi. Hér er eilíft verið að tala um skuldara og þá sem hafa flýtt neyslu en aldrei talað um sparifjáreigendur og vanda þeirra sem hafa frestað neyslu, neitað sér um ýmis gæði, lagt fé til hliðar og sýnt ráðdeild og sparsemi. Sá hópur á ekki upp á pallborðið á Íslandi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra:

1. Er fé að flæða af bankareikningum inn í ríkisbréfin eins og kom fram á vísi.is í gær?

2. Hvaða raunvextir eru á innlánum í dag og þá á ég við óverðtryggðum innlánum, er það ekki rétt skilið að þeir séu neikvæðir?

3. Hvernig telur hann að stórhækkun skatta, úr 10% í 18%, hafi áhrif á vilja manna til að spara?

4. Hvað telur hann að frumvarpið sem við erum að ræða hér og ræddum í gær, reyndar söknuðum við hæstv. ráðherra, um það að bankarnir, og sérstaklega Landsbankinn, fari fram fyrir innlán í veðröðinni með því að veðsetja eignir bankans — hvaða áhrif telur hann að það hafi á sparifjáreigendur?

5. Svo er það síðasta spurningin til hans: Er ríkisábyrgð á innlánum á Íslandi? Hvernig telur hann að innlánstryggingakerfið sé í stakk búið til að tryggja og auka traust manna á innlánum? — Ég vil benda á að það verður ekkert fé lánað út til skuldara nema það sé fyrst sparað.